143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[16:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað leyfist manni að hafa skoðun. En þegar maður er aðstoðarmaður forsætisráðherra Íslands og áhrifamaður stjórnarmeirihlutans í fjárlaganefnd er auðvitað ætlast til þess að orðum manns fylgi alvara og þar með fjárveitingar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á mikilvægi þess starfs sem unnið er við öflun örnefna. Og það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við erum að missa kynslóð og þekkingu í raun og veru á hverju ári sem við látum það áfram viðgangast að vanrækja slíka söfnun, og það er mjög mikilvægt að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fái til þess aukna fjármuni að sinna því verkefni. Ég ætla ekki að vera í neinum stælum við hv. þingmann um það hvað liðið er og hvort menn hafi ekki staðið sig í því. Ég held að það skili engum árangri að vera í einhverjum umkenningaleik um að einhverjir hafi ekki staðið vaktina, heldur hvet ég hv. þingmann til að halda þeim sjónarmiðum sem hann hefur haldið á lofti í umræðunni áfram í fjárlaganefndinni hér síðar á árinu, á nýjum þingvelli, þegar fjárlög fyrir nýtt ár verða þar til umfjöllunar og reyna að tryggja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þau nauðsynlegu bjargráð sem hann þarf til að geta sinnt þessum verkefnum eins og ég veit að hann vill svo gjarnan gera með sóma.