143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að Vestmannaeyingar hafa gert góða grein fyrir þeim mikla vanda sem þetta aðgerðaleysi hefur skapað þeim undanfarinn mánuð. Hins vegar var þessu frumvarpi dreift hér í dag og ég var einfaldlega að inna hæstv. ráðherra eftir því hvar væri að finna greinargerð ráðherrans fyrir því efnahagslega mikilvægi og þeim rökstuðningi sem væri fyrir þessari lagasetningu og styrkti þá ætlun ríkisstjórnarinnar að fara í hana.

Ég vil hins vegar inna hæstv. ráðherra eftir því hvað ríkisstjórnin hefur annað gert til þess að leysa deiluna. Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin ákvað að bæta sjómönnunum á skipi Hafrannsóknastofnunar missi sjómannaafsláttarins enda var það aldrei ætlunin að sjómenn ættu að bera afnám sjómannaafsláttarins, heldur var það afstaðan hér í þinginu að útgerðin gæti borið það og hefur ríkið viðurkennt það grundvallarsjónarmið á skipum Hafrannsóknastofnunar. Hefur ríkisstjórnin boðist til þess að bæta útgerð Herjólfs sjómannaafsláttinn og hjálpa þannig til við að leysa þessa kjaradeilu, eða hefur ríkisstjórnin boðið útgerð Herjólfs að setjast að samningum til þess að liðka fyrir því að þessir aðilar geti náð saman?

Ástæða þess að ég spyr er að hvernig svo sem málið er vaxið finnst manni auðvitað býsna mikil aðgerð að fara í lagasetningu gegn þessum réttindum ef hún snýst um svona fáa einstaklinga og svona litlar fjárhæðir. Þess vegna spurði ég: Er þetta 5 millj. kr. deila? Er þetta 10 millj. kr. deila? Eða er þetta 15 millj. kr. deila? Átti ríkisstjórnin ekki annan valkost? Hún greiðir fyrir þessar samgöngur, kostnaðinn við útgerð Herjólfs. Reyndi ríkisstjórnin að ræða við útgerðina um að (Forseti hringir.) taka þátt (Forseti hringir.) í því að mæta þeim kröfum sem sjómennirnir þarna hafa, (Forseti hringir.) sem virðast margar vera (Forseti hringir.) réttmætar? Eða var eina (Forseti hringir.) viðbragð ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) það að setja lög á aðgerðirnar?