143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi greinargerð ráðherra við málið þá fylgir hún frumvarpinu. Þar er farið vandlega yfir ástæður þess að talin er þörf á því að grípa til þessara aðgerða.

Hv. þingmaður spyr hvort ríkisstjórnin hafi skoðað fleiri leiðir. Skoðað var á vettvangi Vegagerðarinnar hvort hún gæti skoðað aðrar leiðir í gegnum þá samninga sem hún hefur. Ekki var neitt slíkt fært. Og nei, ríkisstjórnin hefur ekki blandað sér í mál er tengjast sjómannaafslætti, svo það sé sagt.

En ég get bara ekki tekið undir þetta með hv. þingmanni, sem ég hvet til að nefna þá lausn sem hann telur vera í sjónmáli, ef hann sér einhverja aðra lausn. Við sjáum hana ekki og við höfum farið yfir það eins ítarlega og okkur er frekast unnt með lögfræðingum okkar og undirstofnunum okkar og aðilum sem best til þekkja. Ég hvet hv. þingmann til þess að nefna það ef hann sér aðra lausn. Ég get ekki tekið undir það að þetta snúist um fáa einstaklinga og litla hagsmuni, eins og sagt var. Þetta snýst um mjög stóra og víðtæka hagsmuni fyrir stórt samfélag. Ég held og ég sé það á látbragði hv. þingmanns að hann var ekki að meina þetta með þeim hætti, en það eru fáir einstaklingar sem þarna eru í verkfallsaðgerðum, en þessir fáu einstaklingar og aðgerðir þeirra hafa gríðarleg áhrif á stóran hóp.

Ég ítreka það sem ég hef margsinnis sagt í þessari umræðu: Ég harma að það komi til þessara aðgerða en við sjáum enga aðra leið og ég sem ráðherra sé enga aðra leið. Hér verða einfaldlega stærri almannahagsmunir að ráða för.