143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur ræðir hv. þingmaður um greinargerðina og allt saman er örugglega ágætlega rökstutt. Hann telur það ekki vera sérstaklega góða lögfræði, eins og hann orðaði það, að greinargerðin sé ekki umfangsmeiri. Hún er að vísu tvær heilar blaðsíður en var um það bil hálf síða í því frumvarpi sem hv. þingmaður flutti ásamt félögum sínum árið 2010 um stöðvun aðgerða gagnvart flugvirkjum. Ég get alveg komið þessum pappír áleiðis til þingmannsins, því að ef verið er að gagnrýna greinargerðina, sem menn telja greinilega ástæðu til, þá hefði umræðan hér á sínum tíma árið 2010 í grunninn átt að snúast um greinargerðina vegna þess að hún var hvorki fugl né fiskur. En það sem hún gerir er nákvæmlega það sem ætlast er til af svona frumvarpi. Hún útskýrir ákveðna stöðu. Hún metur það ekki í krónum og aurum. Hún dregur fram stöðuna í því samfélagi sem býr við þessar aðstæður. Og nú brosir hv. þingmaður vinalega til mín.

Ég verð að segja að ef við ætlum raunverulega að láta þetta risastóra mál sem lýtur að brýnum hagsmunamálum risastórs samfélags snúast um lengd eða gæði greinargerðar, þá erum við nokkuð sammála um efnisatriðin, vegna þess að við erum öll sammála um að það stígur enginn þessi skref með mikilli gleði, hvar sem menn standa í pólitík, hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri.

En ef við ætlum að takast á um greinargerðina skal ég taka það á mig að greinargerðin hefði mátt vera lengri. Hún er hins vegar algjörlega í samræmi við aðrar greinargerðir sem lagðar hafa verið fram. Hún dregur alveg fram áhyggjurnar í málinu og alvarleika málsins. Hún dregur fram áhyggjur íbúa á svæðinu, og ég vona að hv. þingmaður telji að það sé nóg. Það er það sem hún gerir. Hún dregur fram áhyggjurnar sem þarna eru til staðar. Hún dregur fram þann skaða sem þeir sem þarna búa telja sig verða fyrir vegna verkfallsins. Við hljótum að taka mið af því og taka mark á því.

Við skulum bara temja okkur það hér í þingsal almennt að vanda greinargerðirnar. En ég hvet menn til þess að líta til sinni fyrri verka áður en þeir fara mikinn í því að gera svona lagað (Forseti hringir.) að meginatriði. (SJS: Það má ekki gera neinar athugasemdir.)