143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[17:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum öll tekið undir með hæstv. ráðherra, það er ekkert gleðitilefni að baki þessari lagasetningu, en ekki bara snýst þetta um stöðu mála í kjaradeilu heldur einnig um ákveðin grundvallarréttindi. Mig langar aðeins að reifa þau álitamál sem ég held að séu uppi og sé eðlilegt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki til skoðunar að lokinni þessari umræðu. Frelsi manna til að stofna með sér stéttarfélög er bundið böndum sem ekki verða slitin frá frelsi manna til að standa fyrir aðgerðum á vettvangi þessara sömu stéttarfélaga. Þetta heyrir undir það sem við höfum sett undir mannréttindi, þ.e. félagafrelsið og frelsi til að berjast fyrir rétti sínum. Það þurfa alltaf að vera mjög rík rök ef ganga á gegn félagafrelsi stjórnarskrárinnar því að þar með má segja að við séum að skerða mannréttindi.

Það getur verið réttmætt að skerða mannréttindi en þá eru rökin þau að nægilega ríkir almannahagsmunir séu fyrir hendi. Sú spurning sem ég tel að þurfi að svara í kringum þetta frumvarp er hvort þeir ríku almannahagsmunir séu fyrir hendi hér.

Hæstv. ráðherra fór yfir stöðu mála í Vestmannaeyjum. Engum dylst að íbúar Vestmannaeyja eru orðnir langþreyttir á stöðunni og að deilan hefur valdið þeim verulegum erfiðleikum. Það sem við þurfum hins vegar að kanna í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, og ég held að það hafi verið ætlun hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem ræddi greinargerðina, er hvernig þessir almannahagsmunir eru metnir, hvernig nákvæmlega við leggjum mat á þá og hvernig þetta er samanborið við aðrar þær deilur sem sett hafa verið lög um.

Áðan var nefnt allsherjarverkfall sjómanna sem vitnað er til í greinargerð frá árinu 2001 sem varaði í hátt í tvo mánuði áður en lögin voru sett. Um það féll sá dómur sem hv. þm. Árni Páll Árnason vitnaði til áðan, dómur nr. 167/2002, þar sem farið er nokkuð nákvæmlega yfir félagafrelsisákvæðið sem er auðvitað í stjórnarskránni sem og í mannréttindasáttmála Evrópu, en Mannréttindadómstóllinn hefur talið að í ákvæðinu felist vernd þeirra réttinda stéttarfélaga að ráða innra skipulagi og starfsemi og réttur til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna.

Litið hefur verið svo á að leið að því marki sé frelsi þeirra til að semja um kaup og kjör gagnvart vinnuveitendum sínum og til að fylgja þeim eftir með þvingunaraðgerðum, til að mynda verkföllum. Verkfallsrétturinn hefur verið talinn ein mikilvægasta leiðin til að styrkja frelsi stéttarfélaga og í mannréttindasáttmálanum er sú túlkun birt að hann skuli ekki háður öðrum takmörkunum en þeim „sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi“ eins og þar segir, með leyfi forseta.

Ákvæði 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar er hliðstætt 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans. Það sem við þurfum að vega og meta á Alþingi er hvort þeir almannahagsmunir sem hér um ræðir séu nægjanlega ríkir til að sett séu lög á réttindi manna til að berjast fyrir réttindum sínum gagnvart vinnuveitendum sínum.

Niðurstaða þess dóms sem vitnað var til áðan var að almannahagsmunir í allsherjarverkfalli sjómanna 2001 hefðu verið nægilega ríkir til þess að setja þau lög en það er fallist á þær forsendur að þeir þurfi að vera verulegir og þá var vitnað til þeirra efnahagslegu hagsmuna sem fólust í því að stærsta útflutningsafurð Íslendinga, fiskur, og sjávarútvegur, stærsta atvinnugrein Íslendinga, hefði í raun verið í lamasessi í hartnær tvo mánuði áður en lögin voru sett. Það er mikilvægt fordæmi.

Hér hefur líka verið vitnað til tilmæla Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO. Í þeim var því beint til íslenskra stjórnvalda að forðast í lengstu lög að beita slíkum úrræðum.

Mikilvægt er að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki þessa spurningu fyrir og fái til sín réttarfarsnefnd og ríkislögmann til að fara yfir þau mál með okkur og hugsanlega fleiri aðila eins og lögmenn ASÍ sem geta þá varpað ljósi á þetta. Eins og ég segi var þarna um að ræða svokallaða efnahagslega vá.

Hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni lagasetninguna frá 2010 um verkfall flugvirkja. Þar má segja að hægt sé að meta þessa almannahagsmuni í ljósi þess að þá var allt flug til og frá landinu stopp. Þeir voru metnir nægjanlega ríkir til að fallast á það að setja lög á það verkfall. Í þeirri greinargerð sem ég hef hér rifjað upp voru líka nefndar kröfur þeirra og það er mikilvægt að varpað verði ljósi á það í meðförum nefndarinnar að kröfur þeirra voru mjög miklar á þeim tíma, á tíma þegar flestar stéttir tóku á sig launalækkun. Það var nefnt sem röksemd í greinargerð að kröfur flugvirkja hefðu verið langt umfram kröfur á vinnumarkaði og það hefði verið hluti af því að ráðist var í þá lagasetningu.

Það er mjög mikilvægt að svara spurningunum um lögmætið. Hér er um að ræða stjórnarskrána og grundvallarréttindi. Ég veit að margir hv. þingmenn eru mér sammála um að réttur fólks til að berjast fyrir réttindum sínum er í hugum margra okkar alveg óskaplega dýrmætur. Ég get ekki sagt heilagur því að ég greiddi atkvæði með þessu flugvirkjaverkfalli 2010 á þeim forsendum að þar hefðu almannahagsmunir vegið það þungt fyrir Ísland að þetta væri réttlætanlegt. Það breytir því samt ekki að það er mjög mikilvægt að við setjum þessi lóð á vogarskálarnar og metum hagsmunina. Það er ekki algjört ferðastopp til og frá Vestmannaeyjum en það er verulegt óhagræði af þessu fyrir íbúa Vestmannaeyja. Það er samt ekki búið að klippa algjörlega á samgöngur milli lands og Eyja. Þetta er nokkuð sem við þurfum að sjálfsögðu að meta. Hvenær er þetta farið að ógna almannahagsmunum nægjanlega mikið til að ganga gegn þessum grundvallarrétti vinnandi fólks til að berjast fyrir kjörum sínum? Það er mikilvægt að við áttum okkur líka á því hversu mikið nákvæmlega ber í milli aðila í deilunni og hvort búið sé að fullreyna allar leiðir. Við þingmenn getum ekki haft bein afskipti af því en það er mikilvægt til þess að við áttum okkur á umhverfi deilunnar þannig að við getum tekið upplýsta afstöðu.

Hv. þm. Árni Páll Árnason gerði að umtalsefni verkfall framhaldsskólakennara sem nú stendur yfir. Hátt í 30 þús. nemendur njóta ekki þeirrar kennslu sem þeir eiga rétt á. Það verkfall hefur núna staðið alllengi. Meðan það verkfall beinlínis stendur yfir og ýmis önnur kjaramál hafa verið mjög viðkvæm á undanförnum vikum og mánuðum og við sjáum fram á frekari átök á vinnumarkaði verðum við að átta okkur á því að sú ákvörðun sem Alþingi tekur í dag eða á morgun eða hvernig sem það verður í kringum þetta mál hefur fordæmisgildi. Hvernig metum við almannahagsmuni út frá því að hátt í 30 þús. nemendur njóti ekki kennslu? Á að fara að setja lög á verkfall framhaldsskólakennara?

Eins og hæstv. ráðherra fór yfir eru ýmis fordæmi en það má líka segja að í kringum þessa umræðu á undanförnum árum hafi ýmislegt gerst. Ég nefni þennan dóm frá árinu 2002 og ég nefni tilmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem er líka ástæða til að vega og meta. Þar birtast mjög eindregnar vísbendingar um að ekki eigi að beita þessu úrræði nema mjög ríkir almannahagsmunir séu fyrir hendi.

Ég sé svo sem ekki ástæðu til að fara dýpra ofan í þetta mál hér við fyrstu yfirferð enda er frumvarpið nýkomið fram. Þetta eru þau atriði sem ég tel að hv. þingmenn þurfi að skoða mjög nákvæmlega í tengslum við þetta frumvarp og tryggja að við getum tekið ákvörðun út frá því að við teljum alveg ljóst hverjir hagsmunirnir séu í raun og veru.