143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[18:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði er akkúrat kjarni málsins. Hvenær er rétt að brjóta mannréttindi? Hvenær er rétt að brjóta stjórnarskrá Íslands? Erum við að horfa á slíka neyð að það sé réttlætanlegt?

Það sem ég hef gríðarlegar áhyggjur af er að núna erum við á þannig tímum að mjög margir hafa neyðst til að nýta sér verkfallsrétt sinn. Ef þetta inngrip í félagaréttinn verður heimilað, hvernig fer þá fyrir starfsfólki Isavia? Hvernig fer þá fyrir framhaldsskólakennurum? Hvernig fer þá fyrir öðrum sem þurfa að nýta sér þennan rétt? Er þetta réttlætanlegt inngrip inn í mannréttindi þeirra sem hér er um að ræða? Það er mannréttindabrot.

Það sem mér finnst, forseti, afar óþægilegt við þetta mál er að enginn talar um þá sem bera höfuðábyrgð á málinu. Hverjir eru það? Er það ekki Eimskip? Í þessu máli er Eimskip vondi karlinn. Það fyrirtæki er núna í skjóli ríkisvaldsins að hafa mannréttindi af því fólki sem hefur neyðst til að grípa til þessa verkfæris. Það er ekki gott inngrip ríkisvalds. Ég skora á hæstv. innanríkisráðherra að endurskoða þessa tillögu.

Það sem truflar mig líka er að við höfum verið að tala mikið gegn verkföllum. Talað hefur verið um að það sé mikil blessun að hér hafi ekki verið nein verkföll í langan tíma og gerð hafi verið þjóðarsátt. Nú vitum við það því miður, kannski til heilla, að þjóðarsáttin er rofin út af því að mjög hefur hallað á réttindi margra í skjóli þjóðarsáttar.

Við erum að sigla inn í tíma þar sem við þurfum að sýna ákveðna auðmýkt gagnvart því að margir í samfélaginu eru komnir út á ystu nöf. Við skulum ekki gleyma því, þó að það þyki kannski ekkert voðalega fínt eða sniðugt að blanda því inn í, að til eru hópar á Íslandi sem verulega er skorið á mannréttindi hjá því að þeir geta ekki farið í verkfall til að rétta sinn hag. Ef við erum að fara núna í þá vegferð að skerða verkfallsrétt hjá einum hóp, gerum ekkert fyrir þá sem geta ekki einu sinni farið í verkfall, af því að það er ekki hægt, og skipa þeim að hætta að vera veikir eins og margir öryrkjar þurfa að þola eða hætta að vera gamlir eins og margir fátækir eldri borgarar þurfa að þola, þá erum við að seilast á svo veikum grunni, eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir, að mannréttindabroti og stjórnarskrárbroti. Þetta er byggt á mjög veikum grunni. Ef maður skoðar söguna er ekki hægt að bera þetta saman við fyrra inngrip hjá starfsfólki Herjólfs.

Við ættum virkilega að finna einhverjar aðrar leiðir en að fara gegn félagaréttinum með ofbeldi, því að þetta er ekki neitt annað en ofbeldi. Þegar málið fer til nefndar mundi ég líka vilja skoða sjónarmið þeirra sem nú hafa verið í mánuð í verkfalli, við skulum muna að þetta verkfall snýr ekki að dagvinnutíma heldur yfirvinnutíma. Erum við þá, Alþingi, að fara að samþykkja það að þvinga fólk í yfirvinnu? Er það réttlætanlegt? Það finnst mér ekki og ég mun ekki styðja þá aðgerð ríkisvaldsins. Ég vil frekar að ríkisvaldið finni leið til að skera á þennan hnút án þess að ganga á rétt annars aðilans. Það er skammarlegt atferli.