143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[18:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp um að setja lög á verkfall starfsmanna á Herjólfi. Eins og komið hefur fram áður taka menn ekki ákvörðun sisvona um að ríkisvaldið gangi fram á þennan hátt og ætli sér að setja lög á lögmætt verkfall, því að verkfallsrétturinn er mjög dýrmætur og í mínum huga er hann heilagur. Ég fór sjálf í verkfall árið 1997 sem fiskverkakona vestur á fjörðum þar sem fiskverkafólk var í verkfalli heilar fimm vikur. Endaði það verkfall með miðlunartillögu frá ríkissáttasemjara sem leysti þá deilu. Að því sögðu segi ég að það fer enginn í verkfall að gamni sínu. Menn grípa til verkfallsvopnsins þegar allar aðrar leiðir eru lokaðar, því að það er beitt og vissulega bitnar það á einhverjum, annars væri lítið gagn að verkfallsvopninu.

Menn hafa svolítið talað um afleiðingar þessa verkfalls. Það hefur vissulega ekki góðar afleiðingar í för með sér fyrir íbúa Vestmannaeyja, en menn beita slíku vopni vegna þess að undan því svíður. Menn eiga ekki að nota það vopn nema í ýtrustu neyð. Ég lít þannig á að þeir sem fara í verkfall séu búnir að leita allra leiða til að ná samningum við samningsaðila sína áður en sú ákvörðun er tekin. Mér finnst ekki hafa verið talað um þá einstaklinga hér, því að það er vissulega verið að tala um nokkra einstaklinga sem eru ekki margir, sem eru búnir að vera í þessu yfirvinnubanni í tæpan mánuð, þetta bitnar líka á þeim og fjölskyldum þeirra. Þeir aðilar fara ekki í þetta verkfall að gamni sínu, því að þeir verða auðvitað fyrir kjararýrnun og eru að berjast fyrir bættum kjörum. Ég ætla ekki að fara að ræða efnislega hvar greinir á milli aðila, en ég þekki það vel til kjarasamninga og almennra samninga stéttarfélaga í landinu að ég veit að þessi stétt er ekki ofalin af kaupi sínu. Menn hafa ekki gengið hart fram heldur hafa farið í það að beita verkfallsvopninu gagnvart því að vinna ekki yfirvinnu.

Ég kalla eftir ábyrgð fyrirtækisins Eimskips í þessu máli. Er ekki rétt að láta þetta brenna á þeim aðilum sem þarna eiga að vera hinum megin við borðið? Ég kalla líka eftir ábyrgð ríkisins í málinu sem greiðir fyrir þann samning sem er við Eimskip í dag um flutninga milli lands og Eyja og siglingar Herjólfs þarna á milli. Mér finnst ekkert hafa komið fram sem sýnir að reynt hafi verið að leysa þetta mál sem mér finnst að ætti ekki að vera svo efnahagslegur þungur baggi að leysa gagnvart þessum aðilum, hvorki hjá Eimskipi né ríkinu ef það kæmi inn í þríhliða viðræður á einhvern hátt.

Við þekkjum öll stjórnarskrárvarinn rétt, félagafrelsi sem er stjórnarskrárvarið og mannréttindi, það er ekki léttvægt. Hvar ætla menn að draga mörkin þegar þeir stíga þetta skref, verandi með framhaldsskólakennara í verkfalli sem berjast fyrir bættum kjörum? Þar eru vissulega stórir hagsmunir undir, hagsmunir allra barnanna og hagsmunir þeirra kennara sem eru að berjast fyrir bættum kjörum. Hvernig vegum við saman þetta verkfall, það verkfall sem ég nefndi áðan og önnur verkföll sem hugsanlega verða í framtíðinni? Hvar ætlum við að draga mörkin? Hver á þröskuldurinn að vera?

Mér finnst líka rétt að rifja upp þegar ríkið greip inn í kjarasamninga við sjómenn árið 2001, þeir gerðu það líka árin 1993, 1994, 1998 og svo 2001. Það var kært til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Því máli lauk með því að tilmæli komu til íslenskra stjórnvalda um að forðast slíkar íhlutanir í framtíðinni. Mér finnst að við eigum að taka mark á því.

Mér finnst að það þurfi alvarlega að greina hver efnahagslegu rökin í þessu máli eru fyrir því að setja lög á þetta verkfall. Hvaða ríku almannahagsmunir eru þar á ferðinni umfram það sem alltaf fylgir verkföllum, að það bitnar á einhverjum? Verkfallsvopni væri aldrei beitt ef það bitnaði ekki á neinum, þá héldu menn áfram að ræða málin þar til einhvern tímann kæmi niðurstaða í þeim efnum.

Ég held að við verðum að ganga mjög varlega í þá veru að hefta þennan helga rétt, verkfallsréttinn, og brjóta á þeim mannréttindum að fólk geti beitt sér í stéttarfélögum sínum til þess að bæta kjör sín og að þetta sé neyðarúrræði sem menn beiti til þess að krefja vinnuveitendur um að koma nær mönnum í kröfugerð þeirra. Auðvitað þurfa allir að gefa eitthvað eftir og ná einhverri málamiðlun, eins og menn þekkja. En ríkið á ekki að grípa inn í verkföll nema fyrir því séu mjög þung rök, efnahagsleg, og að almannaheill sé í húfi. Maður getur ekki flokkað þetta verkfall þannig því að þá mundum við yfir höfuð grípa inn í öll verkföll á sambærilegan hátt í framtíðinni. Við erum illa á vegi stödd ef við ætlum að brjóta gegn mannréttindum launþega landsins sem barist hafa lengi fyrir því að hafa þann stjórnarskrárvarða rétt að hafa möguleika á að semja um kaup og kjör og að grípa til verkfalls ef brýn nauðsyn krefur.