143. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[18:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE. Fluttar hafa verið margar góðar ræður um að verkfallsrétturinn sé heilagur. Í árdaga verkalýðsbaráttunnar í byrjun 20. aldar var það örugglega rétt að mjög mikilvægt var fyrir verkalýðinn að hafa verkfallsréttinn, mjög mikilvægt, en hann hefur breyst. Hann er stjórnarskrárbundinn. Og ég segi: Hann er stjórnarskrárbundinn réttur til að beita ofbeldi. Þeir hafa hæstu launin út úr kjarasamningum sem valda þriðja aðila mestu tjóni án eigin framlags, án mikils eigin framlags. Þeir hafa hæstu launin.

Við skulum bara fara í gegnum þetta. Lítum á flugmenn. Lítum á flugumferðarstjóra. Lítum á alla þá sem geta valdið gífurlegu tjóni með litlu eigin framlagi, valdið þriðja aðila tjóni. Verkfallsrétturinn er því kominn dálítið út fyrir það sem var í árdaga.

Síðan er svo merkilegt í öllu þessu, herra forseti, að láglaunafólk, t.d. í leikskólum, sem er virkilega láglaunafólk með kannski 70–80% starfshlutfall, sem er tíska, af mjög lágum launum, það fólk getur ekki stofnað stéttarfélag og farið í verkfall. Af hverju ekki? Af því að Alþingi Íslendinga hefur sett lög um að allir opinberir starfsmenn skuli greiða í stéttarfélag sem ríkið semur við. Það er ekkert félagafrelsi þar.

Ég hef sjö sinnum flutt frumvarp um að breyta þessu. En það er svo merkilegt að þeir sem eru lakar settir geta ekki farið í verkfall og stofnað stéttarfélög þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar. En svo geta fámennar stéttir, eins og við ræðum um hér, valdið þriðja aðila gífurlegu tjóni. Fólk missir tekjur, fólk missir af að geta farið í land og fólk missir jafnvel fyrirtæki eða er orðið gjaldþrota. Þá er það allt í lagi. Þá er verkfallsrétturinn heilagur.

Ég skora á hv. þingmenn að skoða þetta mál í samhengi.