143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar náðum saman um minnihlutaálit sem hér hefur verið dreift og rekur þau helstu sjónarmið sem okkur þótti mestu skipta eftir lestur frumvarpsins og eftir fundi í nefndinni.

Í fyrsta lagi er vert að geta þess að þó að fram hafi komið á nefndarfundi í kvöld að langt sé á milli deiluaðila í þessu máli er það í sjálfu sér ekki einsdæmi í kjaradeilum, heldur þvert á móti, það er mjög oft sem mikið ber í milli og það er enginn vitnisburður um það hvort samningaleið hafi verið reynd til þrautar, hvort mikið beri í milli á einhverjum ákveðnum tímapunkti eða ekki.

Það er líka ljóst að aðdragandi þessa máls er ekki eins og best verður á kosið. Það er sérkennilegt að þurfa að fara yfir þetta mál á einum kvöldfundi í umhverfis- og samgöngunefnd, leita til þeirra sérfræðinga sem geta brugðist við með afskaplega skömmum fyrirvara og þurfa jafnvel að vera í þeirri slæmu stöðu að lykilsérfræðingar hafa ekki haft fullnægjandi ráðrúm til að lesa mál eins og þeir helst vildu gera.

Það er líka athugunarefni sem formaður Sjómannafélagsins benti á á fundi með nefndinni í kvöld að umhverfis- og samgöngunefnd hafi fundað með bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum og hafi fjallað um þetta mál en að ekki hafi verið óskað eftir að fá á fund nefndarinnar fulltrúa þeirra sem í vinnudeilunni eiga í Vestmannaeyjum.

Það er umhugsunarefni þegar við veltum því fyrir okkur í framtíðinni og í framhaldinu með hvaða hætti löggjafinn kemur að virkum vinnudeilum hvernig álitsumleitan og samráði við deiluaðila er hagað.

Í fyrri ræðu minn í dag rakti ég nokkrar efasemdir um málatilbúnaðinn og ég verð að segja að meðferð málsins í nefndinni hefur frekar staðfest mínar verstu grunsemdir í þessu efni en hitt. Við eyddum miklum tíma í kvöld í að ræða skilgreininguna á almannahagsmunum, því að Hæstiréttur setti í dómi frá 2002 það viðmið að ríkir almannahagsmunir þurfi að vera í húfi og alvarleg efnahagsvá til að réttlætanlegt sé fyrir löggjafann að grípa inn í kjaradeilur. Viðmiðið er ekkert smáræði, viðmiðið er dómurinn sem féll 2002 og laut að stöðvun verkfalls alls fiskiskipaflotans sem þá hafði staðið í tæpa tvo mánuði með tilheyrandi lamandi áhrifum fyrir alla þá útflutningsatvinnugrein og atvinnulíf vítt og breitt um landið.

Á fund nefndarinnar komu sérfræðingar, m.a. prófessor í stjórnskipunarrétti við háskólann, Björg Thorarensen, og Ástráður Haraldsson, sem var lögmaður Alþýðusambandsins í því máli sem dómur gekk í árið 2002.

Það er ljóst af umræðum í nefndinni og því sem sérfræðingarnir settu fram að dómurinn frá 2002 er lykilfordæmi til að túlka umfang samningsréttarins og friðhelgi hans og þá stjórnarskrárvernd sem hann sannarlega nýtur. Þá verður að hafa í huga þegar menn horfa á einhver fordæmi úr fjarlægari fortíð að gerðar voru breytingar á stjórnarskránni 1995 sem breyttu í grundvallaratriðum réttarstöðu stéttarfélaga í þessu efni og styrktu hana. Í dómi Hæstaréttar frá 2002 eru ítarlega rakin þau sjónarmið sem leggja þurfi til grundvallar til að hægt sé að fallast á inngrip í samningsréttinn. Þar eru líka ítarlega rakin ýmis mælanleg áhrif á almannahag sem geta réttlætt að menn telji almannahagsmunum ógnað og að raunveruleg efnahagsleg vá steðji að. Vísað er ítarlega í dómnum sjálfum í lögskýringargögn eins og framsöguræður og nefndarálit.

Ég sakna jafnt úr framsöguræðu sem og úr greinargerð með frumvarpinu og úr nefndaráliti meiri hlutans einhverra nýrra efnislegra greininga sem staðið geta undir réttlætingu á því að hér séu svo ríkir almannahagsmunir í húfi að þeir réttlæti að gengið sé á stjórnarskrárvarða hagsmuni af samningsréttinum.

Í samanburði við hinn gengna dóm kom fram hjá sérfræðingunum að í veigamiklum atriðum eru mjög ólíkar aðstæður uppi nú. Jafnframt komu fram varnaðarorð af hálfu forustu Alþýðusambandsins, að hér væri með það almennum hætti lagt af stað í vegferð til að takmarka samningsrétt og rétt til verkfalla að efast mætti um að verkfallsrétturinn stæðist þá aðför óbreyttur. Með öðrum orðum væri vegið að grundvallarinntaki verkfallsréttarins með því að takmarka hann svo mjög að setja viðmiðið við almenn neikvæð samfélagsleg áhrif af vinnudeilunni eins og gert er í frumvarpinu sem hér er til umræðu.

Grundvallarhugmyndin að baki verkföllum er að valda samfélagslegum óþægindum. Það er markmið þeirra í sjálfu sér og þar af leiðandi þurfa stærri og ríkari almannahagsmunir að vera fyrir hendi til að hægt sé að réttlæta það að löggjafinn stöðvi verkfall sem í gangi er.

Virðulegi forseti. Í mínum huga er ljóst eftir þá umfjöllun sem fram fór í nefndinni í kvöld að ekki eru efnislegar forsendur til að fallast á það mál sem hér liggur fyrr og það sem meira er, ég óttast mjög fordæmisgildi þess ef samþykkt verða hér lög með þessum rökstuðningi sem takmarka verkfallsrétt og samningsrétt launafólks vegna þess að aðrar kjaradeilur standa nú yfir. Þessi ákvörðun hefur óhjákvæmilega fordæmisgildi gagnvart þeim. Það liggur fyrir ásetningur verkalýðsfélaga sem eiga samninga við Isavia að boða til vinnustöðvana nú í aprílmánuði.

Það er erfitt að sjá fyrir sér annað en að ríkisstjórnin geti þá komið hér fram með frumvarp til að banna þau verkföll. Auðvelt ætti að vera fyrir ríkisstjórnina að sýna fram á víðtækari truflun af þeim verkföllum en því yfirvinnubanni sem hér er um að ræða. Starfsemi Herjólfs hefur ekki verið stöðvuð.

Það verður líka að segjast eins og er að sjónarmiðin um hin almennu samfélagslegu óþægindi sem forsendu fyrir inngrip í samningsréttinn, sem við sjáum núna, hljóta að geta orðið ríkisstjórninni yrkisefni á næstu vikum að því er varðar verkfall framhaldsskólakennara sem nú stendur yfir því að auðvitað hefur það víðtæk samfélagsleg áhrif.

Ég tel einfaldlega að ekki hafi verið sýnt fram á nógu afmarkaða umgjörð þess inngrips sem hér er lagt til til að hægt sé að fallast á það og réttlætingar ástæðunnar dugi ekki til að mæta þeim skýru skilyrðum sem Hæstiréttur taldi að þyrftu að vera fyrir hendi við slíkt inngrip í dómi sínum árið 2002.