143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:18]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti athugasemdir sem fram komu frá einum gesta nefndarinnar. Það er umhugsunarefni fyrir Alþingi, ef það ætlar að grípa inn í kjaradeilur, með hvaða hætti álita er leitað. Það getur ekki talist góður siður að leita fyrst á handahlaupum til deilenda nokkrum klukkustundum áður en lög eru samþykkt og eftir að búið er að leggja frumvarp fram.

Það getur ekki verið ekki til eftirbreytni og það er umhugsunarefni fyrir löggjafann ef vilji hans stendur til þess að taka ríkari þátt í að regla hér verkfallsrétt og samningsrétt með hvaða hætti menn haga þessum málum.

Nefndarmeirihlutinn felldi tillögu um að leita eftir því að forusta Alþýðusambandsins kæmi á fund en skipti svo um skoðun og ég fagna því og þakka það.

Vegna þess að hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni afstöðu mína í annarri kjaradeilu vil ég nefna það að ég hef sagt hér frá upphafi að það þurfi efnislega greiningu á hverju tilviki til að ákveða hvort inngrip sé réttlætanlegt í hverju og einu tilviki, alveg eins og menn eru ekki annaðhvort fylgjandi eignarnámi eða á móti því, menn þurfa að athuga hvort lögmælt skilyrði eignarnáms eru uppfyllt í hverju og einu tilviki áður en menn geta samþykkt hvert og eitt tilvik.

Með sama hætti er það háð mati á hverju og einu tilviki, aðstæðum og réttlætingarástæðum hvort menn geti fallist á inngrip í hinn stjórnarskrárverndaða samningsrétt eða ekki. Í þessu tilviki fellur ríkisstjórnin einfaldlega á prófinu, það eru engin boðleg efnisleg rök sett fram. Meiri hlutinn í nefndinni bætir þar ekkert úr, það er hin bitra staðreynd.