143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta. Í því tilfelli sem ég ber þetta mál saman við voru sett lög áður en óþægindin komu fram. Óþægindin höfðu ekki komið fram, það hafði verið boðað verkfall, það átti að fara að hefjast. Óþægindin voru ekki komin fram, en engu að síður telur hv. þingmaður að í því tilviki hafi almannahagsmunir verið það miklir að réttlætanlegt hafi verið að grípa inn í með lagasetningu.

Eru þá mannréttindi þeirra sem búa í Vestmannaeyjum og réttindi þeirra til að fá að ferðast milli lands og Eyja eftir þjóðvegi sínum minni en hagsmunir fyrirtækja sem hafa hag af því að flytja gesti hér á milli landa og þá erlendra ferðamanna? Ég skil ekki alveg hvernig það fær staðist.

Ég tel að þegar við tölum um svona gríðarleg áhrif á innviði samfélagsins sé að sjálfsögðu réttlætanlegt að við stígum inn í þegar ekki sést til lands í deilunni. Ég sé ekki hvað annað var hægt að gera í málinu. Það er ljóst að ekkert hefur þokast í samkomulagsátt í þessari deilu og ekki fyrirsjáanlegt að svo verði í náinni framtíð. Þess vegna er hér um að ræða ríka almannahagsmuni og því er mikilvægt að við grípum inn í deiluna, gefum samningsaðilum frest, meiri tíma til að ná saman, og hvetjum þá jafnframt til að nýta tímann vel.