143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:31]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og skýrt kom fram í umfjöllun í nefndinni frá sérfræðingunum sem fyrir hana komu skiptir ekki máli við mat á því hvort almannahagsmunirnir eru uppfylltir hvort óþægindin séu komin fram eða ekki.

Það eru efnisleg viðmið sem skipta máli við þetta mat. Fyrir liggur að sérfræðingarnir sem komu fyrir nefndina töldu hæpið að þessi skilyrði væru uppfyllt nú og að málið stæðist stjórnarskrá.

Viðlíka vitnisburður kom ekki fyrir nefndir þingsins þegar lög voru sett 2010. Það liggur líka fyrir að af hálfu Alþýðusambandsins kemur núna fram sá skilningur (Gripið fram í.) að hér sé netunum kastað svo vítt að samþykkt frumvarpsins feli í sér að þá sé erfitt að finna verkföll sem ekki er hægt að réttlæta að grípa inn í (Gripið fram í.) af nauðsyn, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) þ.e. að erfitt sé að finna verkföll sem ekki sé hægt að nýta þessi réttlætingarrök um. Afleiðingar verkfalla eru oftar en ekki staðbundnar. Vegna þess að stéttarfélög eru oftar en ekki svæðisbundin leggjast afleiðingar verkfalla oftar en ekki misþungt á ólík landsvæði o.s.frv.

Hér er verið að tefla á tæpasta vað, það er ekki efnislegur og traustur grunnur fyrir því frumvarpi sem hér er farið fram með, það hafa sérfræðingarnir staðfest. Alþýðusambandið hefur varað við því og menn geta alveg fussað og sveiað yfir því og hvæst hér fram í mál manna í ræðustól Alþingis, en þetta er staðreynd málsins og fram hjá henni kemst ríkisstjórnarmeirihlutinn ekki ef hann ætlar að böðla málinu í gegn.