143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:39]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Við erum sammála um að verkfallsrétturinn er skýr og afar mikilvægur. Hins vegar greinir okkur á um það í þessu máli hvort þeir ríku almannahagsmunir séu til staðar sem réttlæti það að setja lög á verkfallið. Það er erfið ákvörðun. Ég veit að hv. þingmaður skilur það.

Hv. þingmaður vitnaði hér í ríkissáttasemjara. Ég get alveg tekið undir það að við þurfum með einum eða öðrum hætti að veita honum fleiri úrræði, sérstaklega eitt sem hann nefndi sjálfur, sem var það að geta frestað boðuðum verkfallsaðgerðum. Ríkissáttasemjari vísaði í kollega sína á Norðurlöndum sem hafa slíka heimild. Hann sagði reyndar mjög skýrt, bara svo það komi fram, að hann teldi aldrei nokkurn tímann fullreynt þannig að hann átti ekki endilega við þetta mál, hann er bara þeirrar skoðunar að það alltaf sé hægt að semja, alveg sama hversu langt er á milli aðila.

Nefnt var í ræðu áðan að skilyrði varðandi almannahagsmuni þyrftu ekki að vera þau að óþægindin væru ekki komin fram. Ég heyrði það aldrei nefnt á fundi nefndarinnar, en ég tók eftir því að formaður ASÍ nefndi það sérstaklega að hann hefði verið nákvæmlega sömu skoðunar varðandi lög sem sett voru á verkfallið 2010. Hann nefndi það vegna þess að hann var spurður sérstaklega út í það. Formaðurinn benti á að honum hefði ekki verið boðið að taka þátt í þeirri umræðu, en hann sagði að hann hefði verið nákvæmlega sömu skoðunar. Hann reyndar sagði að sér hugnaðist aldrei að setja lög á verkfallsréttinn, (Forseti hringir.) þannig að það komi allt saman (Forseti hringir.) fram.

En að öðru leyti vil ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar.