143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson segir að hér séu nógu ríkir almannahagsmunir til að þessu verkfalli skuli frestað. En þetta er ekki varanleg lausn, það á að fresta því fram til 16. september. Hvað tekur þá við?

Hvað leggur hv. þingmaður til? Það verður að finna einhverja varanlega lausn á þessu. Ef þetta eru nógu ríkir almannahagsmunir, mun hann þá styðja að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp um að takmarka réttindi starfsmanna sem starfa á Herjólfi eða samgöngur milli Eyja og landsins? Mun hann styðja aðgerðir til að þær samgöngur séu tryggar og þeir aðilar sem starfa þar geti ekki stöðvað þær? Á verkfallsréttur þeirra ekki að vera til staðar? Eins og hv. þingmaður segir eru þetta núna nógu ríkir almannahagsmunir til að fresta þessu verkfalli.

Það að fresta þessu er engin lausn, bara gálgafrestur. Mun hann leggja fram frumvarp, koma að frumvarpi, tala fyrir frumvarpi eða greiða atkvæði með frumvarpi sem tæki verkfallsréttinn af þeim sem eiga að tryggja samgöngur milli Eyja og lands?