143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:14]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað tekur við en vil þó benda á að í þessu frumvarpi er bara gert ráð fyrir því að fresta verkfallinu. Hér er raunverulega farin vægasta leiðin í þessum inngripum, það er ekki bundinn endi á hana. Mönnum er gefinn kostur fram á haustið að finna eitthvað út úr þessu og reyna að semja sem er út af fyrir sig ágætt. Það má vel vera að menn nái því, ég útiloka það ekki.

Auðvitað væri gaman að taka hér almenna umræðu um verkfallsréttinn yfir höfuð. Er það sjálfsagt og er það stjórnarskrárvarið að allir eigi þennan rétt? Nei, það er ekki þannig. Sum störf eru þannig að örfáir aðilar geta tekið heilu samfélögin, jafnvel allt landið, í gíslingu. Þá eru menn ekki að nýta þann neyðarrétt sem verkfallsrétturinn er. Ég þori tæpast að nota orðið hér en þá er verið að misnota þennan rétt og það er líka áhyggjuefni. Er eðlilegt að þeir sem hafa þetta vopn í höndunum geti nýtt það með þessum hætti til skaða fyrir heilu samfélögin og bæjarfélögin? Við skulum taka þá umræðu einhvern tímann síðar.

Í þessu tilviki tel ég þetta hafa það mikil áhrif á aðra en viðsemjanda, innviði þessa samfélags, ekki bara efnahagslega heldur innviði þess, þ.e. að geta búið þar yfir höfuð og komist á milli staða. (Forseti hringir.)