143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála þingmanninum, það er óþolandi að örfáir aðilar, sex aðilar, eða tíu manns sem vinna í sex stöðugildum, geti tekið heilt byggðarlag í gíslingu, 4.300 manns. Þetta eru réttindi sem þeir hafa núna. En eiga þeir að hafa þau? (Gripið fram í: Við viljum að þeir hafi þau.) Líklega vilja landsmenn að þessi réttindi séu til staðar. Ég mundi segja að það væri landsmanna að ákveða það, það þarf að verða umræða um það, en þarna er klárlega til staðar sá réttur að taka heilt byggðarlag í gíslingu.

Aftur spyr ég: Er það viðunandi að við höldum áfram slíku fyrirkomulagi? Þurfum við ekki að vera lausnamiðuð í þessu máli? Það er ekki nóg að koma bara með gálgafrestinn, það þarf líka að benda á lausnir til framtíðar. Hvernig hugnast hv. þm. Brynjari Níelssyni (Forseti hringir.) að sú lausn væri?