143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

fyrirhugaðar refsiaðgerðir vegna hvalveiða Íslendinga.

[15:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér og hegg í sama knérunn því að framtíð hvalveiða hefur um langt skeið verið óviss og atburðir vikunnar hljóta að auka óvissuna enn frekar.

Japanir hafa stundað svokallaðar vísindaveiðar á hvölum um árabil og í kjölfar kæru frá Ástralíu hefur dómstóll Sameinuðu þjóðanna, The International Court of Justice, úrskurðað þessar hvalveiðar Japana ólöglegar og hefur japanska ríkisstjórnin ákveðið að virða úrskurðinn og hætta hvalveiðum. Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama,

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í hliðarsölum, hávaði berst ótæpilega hér inn.)

… hefur einnig sent bréf til forseta Bandaríkjaþings og birt á heimasíðu Hvíta hússins þess efnis að öll tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna verði tekin til endurskoðunar í ljósi hvalveiða Íslendinga.

Góð samskipti Íslands og Bandaríkjanna eru okkur mikilvæg og ég vil minna á að hæstv. ríkisstjórn hefur það sérstaklega á stefnuskrá sinni að auka tvíhliða samstarf vestur um haf. Ákvörðun Bandaríkjaforseta er því augljóslega nokkurt áfall fyrir þá áherslu hæstv. ríkisstjórnar.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hvalveiðibanni Japana annars vegar og hins vegar hvernig ríkisstjórnin muni bregðast við þeirri ákvörðun Bandaríkjaforseta að endurskoða tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Í ákvörðuninni felast ýmis atriði og eitt af þeim er til dæmis að ráðherrar og embættismenn meti það sérstaklega hvort þeir heimsæki landið og síðan ákvarðanir um frekari aðgerðir. (Forseti hringir.) Ég vil vita afstöðuna til þessa banns í Japan og hvað ríkisstjórnin hyggist gera vegna yfirlýsingar Bandaríkjaforseta.