143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

fyrirhugaðar refsiaðgerðir vegna hvalveiða Íslendinga.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ekkert nýtt í yfirlýsingum Bandaríkjaforseta nú. Hann hefur áður lýst því sama yfir. Þetta er bara endurtekning á því sem forsetinn sagði árið 2011 og það varð engin veruleg breyting á samskiptum landanna milli 2011 og 2013 nema hvað, eins og hv. þingmaður hefur getið um, að mikil áhersla er á það hjá nýrri ríkisstjórn að efla tengslin við Bandaríkin. Menn hljóta að gera ráð fyrir því að Bandaríkjamenn séu ekki það ófyrirleitnir að þeir færu að beita aðra þjóð refsiaðgerðum fyrir það sem þeir gera sjálfir í meira mæli en nokkurt annað land.

Hvað varðar Japana og veiðar þeirra við suðurskautið og niðurstöðu Alþjóðadómstólsins þekki ég svo sem ekki vísindalegar forsendur þeirrar ákvörðunar, hvort þetta voru ósjálfbærar veiðar eða ekki. Hins vegar, af því að hv. þingmaður spyr um afleiðingar þeirrar niðurstöðu, má benda á að hugsanlegar afleiðingar gætu verið þær að þetta mundi bæta markaðsstöðu íslenskra hvalaafurða í Japan vegna þess að þar yrði skortur á hvalkjöti miðað við það sem nú er. Japanar eru eins og þekkt er hrifnir af hvalkjöti, eins og margir Íslendingar, þannig að líklegasta afleiðingin er markaðsleg áhrif í Japan.

Svo aftur varðandi þetta prinsipp og mikilvægi þess að Íslendingar verji réttinn til að nýta auðlindir sínar, þá eru til stór náttúruverndarsamtök sem berjast gegn þorskveiðum í Atlantshafi og hafa jafnvel mælst til þess að þær verði bannaðar. Eigum við þá næst að fara í að semja við menn um hvort við megum yfir höfuð veiða þorsk eða hversu mikinn þegar búið er að gefa eftir (Forseti hringir.) rétt okkar, þetta prinsipp til að nýta eigin auðlindir?