143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

fyrirhugaðar refsiaðgerðir vegna hvalveiða Íslendinga.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér á raunar við sama svar og áðan, auðvitað er mikilvægt samt að við höldum málstað okkar á lofti, ekki aðeins í hvalveiðimálum heldur varðandi makríl og ýmislegt fleira líka.

Af því að hv. þingmaður hefur sérstakar áhyggjur af því að menn hugsi um fátt annað en hvalveiðar þegar Ísland kemur upp í hugann erlendis eða þegar spurt er um Ísland er hv. þm. Jón Gunnarsson nú fróður um hvalveiðar og hefur ýmsar skemmtilegar staðreyndir á takteinunum. Ég hvet hv. þingmann til að leita til Jóns. Eitt af því sem Jón gæti sagt hv. þingmanni er að þegar fólk í Bandaríkjunum er spurt hvað komi upp í hugann þegar Ísland er nefnt voru fleiri sem nefndu að húsgagnafyrirtækið Ikea væri íslenskt en þeir sem nefndu hvalveiðar og áhyggjur af þeim.

Ikea er ekki beinlínis íslenskt fyrirtæki en engu að síður halda fleiri að Íslendingar séu að framleiða húsgögn í meira mæli en nokkur önnur þjóð (Forseti hringir.) en að við séum að veiða hval eða að menn hafi sérstakar áhyggjur af því.