143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

lokun fiskvinnslu á þremur stöðum á landinu.

[15:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir viðbrögðum við þeim válegu tíðindum sem bárust starfsfólki fyrirtækisins Vísis í Grindavík á þremur stöðum á landinu nú fyrir helgi og auðvitað íbúum og forráðamönnum viðkomandi sveitarfélaga um leið, sem sagt að burðarásum atvinnulífs á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri verði lokað, öllu starfsfólki sagt upp, vinnslu hætt og aflaheimildir sem þar hafa verið nýttar færðar burt af staðnum.

Ég tel eðlilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra um mál af þessari stærðargráðu og það liggi í hlutarins eðli að ríkisstjórn í landinu hljóti að láta tíðindi af þessu tagi til sín taka. Þetta eru atburðir af þeirri stærðargráðu í atvinnu- og byggðalegu tilliti og svo þung högg á þessi byggðarlög, öll í raun og veru, svo maður tali ekki um þau sem veikast standa, eins og Þingeyri, að stjórnvöld hljóta að láta þetta til sín taka.

Í öðru lagi ber svo vel í veiði að hæstv. forsætisráðherra er jafnframt fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og tveir af þessum þremur stöðum eru í okkar kjördæmi. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi spurninga:

Hefur ríkisstjórn þegar sett sig inn í þetta mál? Ef svo er ekki, hyggst hún þá ekki gera það á næstu dögum?

Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að ríkisstjórnin geti beitt sér í þessu máli, t.d. með því að virkja Byggðastofnun, fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem jafnframt fer með veigamikil verkefni innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, verkstjórn í málinu eða eitthvað af því taginu?

Hvernig hyggst ríkisstjórnin beita sér í málinu til að helst reyna að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum þessa atburðar?

Af því að hæstv. forsætisráðherra er sérfræðingur í forsendubresti spyr ég: Er ekki ljóst (Forseti hringir.) að ef þetta gengur eftir verður um meiri háttar forsendubrest að ræða í lífskjörum og atvinnu þessa fólks (Forseti hringir.) og byggðarlaganna og sveitarfélaganna sem það tilheyrir?