143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og séreignarsparnaðar. Frumvarp þetta er, eins og kunnugt er, hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Það felur í sér tillögur að breytingum á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál.

Efni frumvarpsins felst í grófum dráttum í tveimur úrræðum sem ég mun nú gera grein fyrir. Hið fyrra felst í því að lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á lögum svo unnt verði að heimila fólki að nýta séreignarsparnað til greiðslu inn á húsnæðislán sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði án þess að til skattgreiðslu komi. Lagt er til að heimildin taki til iðgjalda sem greidd eru á þremur árum, á tímabilinu frá 1. júlí nk. til 30. júní 2017. Miðað er við 500 þús. kr. á ári sem hámarksfjárhæð og miðast hún við heimilið óháð því hvort þar býr einn eða fleiri. Alls getur því hvert heimili lækkað lán sín um 1,5 milljónir á þremur árum gegnum þetta úrræði enda séu tekjur heimilisins slíkar að 6% launanna nái þessu viðmiði. Eigi tveir einstaklingar sem ekki eru í hjónabandi eða sambúð íbúðarhúsnæði saman gilda sömu viðmið fyrir þá.

Það skilyrði er lagt til að heimildin takmarkist við 4% hámarksiðgjald launþega og 2% mótframlag launagreiðenda. Með því móti næst ákveðið jafnræði við beitingu úrræðisins enda er talsvert mismunandi hvert mótframlag launagreiðenda er. Þá er einnig lagt er til að heimildin takmarkist við greiðslur inn á þau húsnæðislán sem veita rétt til vaxtabóta. Úrræðið takmarkast því við öflun á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til nýtt húsnæðissparnaðarúrræði. Í því felst að heimilt verður að nýta þann séreignarsparnað sem safnast hefur á tímabilinu frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 til öflunar á íbúðarhúsnæði skattfrjálst. Með orðalaginu öflun á íbúðarhúsnæði er átt við hvort heldur sem er kaup eða byggingu á íbúðarhúsnæði. Skilyrði er að viðkomandi hafi ekki átt íbúðarhúsnæði á áðurnefndu tímabili eða allt þar til heimildin er nýtt. Lögð eru til sömu viðmið í þessu úrræði og hinu fyrra hvað það varðar að hámarksfjárhæðir og hámarksiðgjöld launþega og launagreiðenda eru hin sömu. Hér er þó lagt til að heimilt verði að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til húsnæðisöflunar allt til 30. júní 2019, þ.e. í fimm ár. Sparnaður sem safnast upp á áðurnefndu þriggja ára tímabili er til ráðstöfunar í þessum tilgangi í fimm ár frá 1. júlí nk.

Við undirbúning lagafrumvarpsins var stefnt að því fyrir bæði þessi úrræði að útbúið yrði einfalt og notendavænt umsóknar- og afgreiðslukerfi. Niðurstaðan varð sú að leggja til að embætti ríkisskattstjóra muni halda utan um rafrænt kerfi sem gildir fyrir hvort tveggja enda er embætti ríkisskattstjóra mjög framarlega í rafrænum samskiptum og komin mjög góð reynsla og þekking hjá því embætti á slíkum samskiptum við fólk.

Í tilviki greiðslu inn á húsnæðislán verður ferillinn á þann veg að umsækjendur sækja um á sérstökum vef. Þeim verður boðið upp á að velja úr þeim vörsluaðilum séreignarsparnaðar og þeim lánum sem tilgreind voru á síðasta skattframtali. Hafi orðið breytingar þar á, eða ef hjúskaparstaða hefur breyst, verður með einföldum hætti unnt að skrá inn breyttar forsendur.

Ríkisskattstjóri mun svo miðla upplýsingum úr umsókn til viðkomandi vörsluaðila og lánveitenda til staðfestingar. Lagt er til að ríkisskattstjóri haldi rafræna skrá með nauðsynlegum upplýsingum vegna þessara umsókna og að vörsluaðilar muni hafa aðgang að henni hvað sína samningsaðila varðar.

Vörsluaðilum séreignarsparnaðar er ætlað það hlutverk að greiða iðgjöld samkvæmt umsóknum inn á safnreikning hjá viðkomandi lánveitendum. Skal það gert eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Miðað er við að iðgjöldin gangi að jafnaði inn á höfuðstól lána en séu þau í vanskilum ber að láta greiðslur fara eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum. Lánveitendur hafa það hlutverk að ráðstafa iðgjöldunum af safnreikningi og inn á lánin í samræmi við þetta.

Umsækjendur geta svo auðvitað valið þann kost að hætta að nýta sér að greiða séreignarsparnað inn á húsnæðislánin sín. Umsókn um slíkt fer sömu leið og hin fyrri, í gegnum vef ríkisskattstjóra. Slík beiðni getur þó ekki haft afturvirk áhrif varðandi þegar greidd iðgjöld inn á lán. Hvað húsnæðissparnaðinn varðar þarf ekki að sækja um nýtingu hans sérstaklega fyrr en þegar að því kemur að taka hann út. Í því felst að ekki verður um að ræða að þessum iðgjaldagreiðslum verði haldið aðgreindum sérstaklega.

Sá sem hyggst halda áfram að leggja til hliðar eða hefja söfnun séreignarsparnaðar í séreignarsparnaðarkerfinu þarf í samræmi við þetta ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir, ekki að gera viðvart um það að viðkomandi hyggist nýta sparnaðinn til ráðstöfunar í þessum tilgangi heldur gerist það, eins og áður segir, fyrst þegar að því kemur að hann er tekinn út. Til þess gefst þá þetta svigrúm í fimm ár. Það kann að vera svo hjá einstaka fjölskyldum eða einstaklingum að viðkomandi muni hefja þetta þriggja ára tímabil sem fasteignareigandi en selja eignina á tímabilinu og þá er opið fyrir það að frá og með þeim tíma sem fasteignin er seld safnist sparnaðurinn upp í þeim tilgangi að honum verði síðar varið til íbúðarkaupa. Þetta virkar líka í hina áttina, ef fjölskylda eða einstaklingur kemur inn í þetta tímabil án þess að eiga húsnæði safnast upp fyrir þann tíma réttur til að taka út síðar í þeim tilgangi að kaupa fasteign. Ef þau kaup eiga sér stað innan þriggja ára tímabilsins breytist rétturinn yfir í það að frá og með þeim tíma sem viðkomandi er orðinn eigandi að fasteign getur hann óskað eftir að séreignarsparnaðurinn gangi til greiðslu á láni sem hvílir á viðkomandi fasteign. Það sem þá hafði þegar safnast upp getur gengið til greiðslu á kaupverði eignarinnar.

Eins og áður segir gildir það fyrir þá sem hyggjast nýta séreignarsparnaðinn í þeim tilgangi að kaupa eign að það er á þeim tímapunkti sem einstaklingur eða fjölskylda hyggst nýta sér húsnæðissparnaðarúrræðið sem þarf að sækja um á vef ríkisskattstjóra. Þá munu þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á að skilyrði úrræðisins séu uppfyllt. Í frumvarpinu er ekki talið upp með tæmandi hætti hvaða gögn getur þar verið um að ræða en að jafnaði yrði þinglýstur kaupsamningur eða afsal tekið gilt vegna kaupa á íbúðarhúsnæði.

Ríkisskattstjóri miðlar svo upplýsingum úr umsókn til viðkomandi vörsluaðila og ber að staðfesta greiðslusögu iðgjalda ásamt því að greiða iðgjöldin út til umsækjanda.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að nýju bráðabirgðaákvæði verði bætt við lög um húsnæðismál. Í því felst nánar tiltekið að heimilt verður af hálfu Íbúðalánasjóðs að falla frá innheimtu uppgreiðslugjalds í þeim tilvikum sem einstaklingar nýta sér að greiða séreignarsparnað inn á húsnæðislán.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég ætla að ljúka máli mínu á því að láta þess getið að í forsendum með þessu frumvarpi er út frá því gengið annars vegar að mjög hátt hlutfall þeirra sem í dag leggja fyrir í séreignarsparnað muni nýta sér úrræðið til greiðslu á húsnæðislánum. Jafnframt er gengið út frá því að það kunni að verða með þessu frumvarpi sérstakur hvati fyrir þá sem ekki eru í dag að nýta sér úrræðin til að hefja séreignarsparnaðarsöfnun. Það hefur áhrif þegar metin eru fjárhagsleg áhrif af þessum lagabreytingum fyrir ríkissjóð en það hefur líka áhrif þegar metið er heildarumfang aðgerðarinnar en talið er að með þessum hætti geti runnið allt að 70 milljarðar til uppgreiðslu á húsnæðislánum eða eftir atvikum til kaupa á fasteignum sem hlýtur að teljast verulegt umfang. Það eru skýrir hvatar í málinu til að nýta úrræðið og þess vegna er það mjög mikilvægur liður í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa nú þegar kynnt.