143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mig langar að nýta tækifærið og spyrja hann um tvennt. Hvað segir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við þeirri gagnrýni sem heyrst hefur á þá leið að hún gagnist þeim mun betur sem hafa hærri tekjur en hinum sem hafa lægri tekjur, hreinlega vegna þess að þeir sem hafa lægri tekjur spara að sjálfsögðu lægri fjárhæðir í ljósi þess að þetta er hlutfallslegur sparnaður?

Eins og kemur síðan fram leggja auðvitað ekki allir fyrir í séreignarsparnað. Við getum velt fyrir okkur ástæðunni fyrir því, en maður gæti dregið þá ályktun án þess að fyrir liggi gögn að það séu þá þeir sem telji sig hreinlega ekki aflögufæra til að leggja í séreignarsparnað. Mig langar sem sagt að fá mat hæstv. ráðherra á þeirri gagnrýni að þetta gagnist í raun þeim tekjuhærri.

Hins vegar langar mig að inna hæstv. ráðherra um þann tekjumissi sem er verið að horfa á til lengri tíma því að skattfrelsið hefur það í för með sér að tekjur munu ekki skila sér til ríkis og sveitarfélaga. Þetta var gagnrýnt nokkuð af sveitarfélögunum þegar þessar hugmyndir voru fyrst kynntar og kvartað undan samráðsskorti. Mér sýnist á greinargerð að það sé erfitt að leggja mat á þennan tekjumissi af því að það er óvíst hversu margir nýta sér þetta. Er þetta eitthvað sem hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af? Hefur verið rætt í framhaldinu við sveitarfélögin um þennan fyrirséða tekjumissi? Telur hæstv. ráðherra ástæðu til að skoða einhverjar leiðir til þess að bregðast sérstaklega við honum til lengri tíma?