143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt hægt að segja um ræðu um að hér sé réttlætinu snúið á haus. Borga ekki allir nákvæmlega sömu skatta í prósentum? Ég hélt það. Ég hélt að þeir sem væru tekjuhærri greiddu hærra hlutfall af heildartekjum sínum í skatta. Ég hélt að það væri þannig.

Er ekki rétturinn bara nákvæmlega sá sami? Hann er 4% plús 2% af tekjunum. Það er rétturinn sem við höfum til þess að leggja í séreignarsparnað og svo borgum við skatta af því eða ekki. Maður veltir fyrir sér hvort hv. þingmaður væri hrifinn af því ef festa ætti krónutöluna að við festum skattana líka í krónutölu, að allir borguðu sömu krónutölu í skatta, og ef það ætti að fella niður skatta fengju líka allir sömu krónutölu í afslátt.

Nei, ég efast um að hv. þingmaður væri hrifinn af því. Þetta er ósköp einfalt. Þeir sem eru með meira en 700 þús. kr. í tekjur fá ekki að nýta að fullu 4% plús 2%. Þau heimili sem eru með tekjur undir því viðmiði geta hins vegar nýtt úrræðið að fullu. Þegar við horfum til þess að aðgerðin er öll miðuð að því að styðja við fólk sem skuldar húsnæðislán — og við vitum að húsnæðislánin haldast mjög í hendur við tekjur heimilanna — er ekkert óeðlilegt við það að upp að ákveðnu marki haldist rétturinn til þess að nýta séreignarsparnað í hendur við tekjurnar vegna þess að skuldirnar eru líka í ákveðnu hlutfalli við tekjurnar. Okkur finnst rétt að setja hámark á það, það er rétt um 700 þús. kr. Upp að 700 þús. kr. hjá hjónum mundi það vera undir meðaltekjum í landinu og þá viljum við að rétturinn sé að fullu til staðar en eftir það skerðist hann. Þá eru menn búnir að ná fullum rétti.

Ég hafna því algerlega að réttlætinu sé snúið á hvolf í þessu máli. Þvert á móti eru það þeir sem eru undir 700 þús. kr. sem fá að nýta réttinn að fullu og það er eðlilegt þegar horft er til þess hvernig skuldir heimilanna eru almennt í (Forseti hringir.) samhengi við tekjur.