143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eftir því sem tekjurnar eru hærri greiðast eðli málsins samkvæmt fleiri krónur í skatta. Þegar við gefum afslátt af sköttunum koma fleiri krónur til þeirra sem eru með hærri skattgreiðslu, hærri tekjur, og færri krónur til þeirra sem eru með lægri skattgreiðslu og lægri tekjur. Rétturinn sem um er að ræða hérna er algerlega í réttu hlutfalli við tekjurnar og, eins og ég er alltaf að koma inn á, líka í réttu hlutfalli almennt séð við skuldastöðu heimilanna. Það er mjög gott jafnvægi á milli þessarar aðgerðar og þeirrar sem við munum fara yfir í næsta þingmáli sem er um leiðréttingu á höfuðstólnum.

Varðandi valfrelsi um ráðstöfun er fullt valfrelsi til staðar og við höfum stutt það og framlengt réttinn til að taka út séreignarsparnað að því gefnu að fólk ætli að greiða skatt af honum. Við höfum stutt það í gegnum allt síðasta kjörtímabil, og gerum enn, að fólk geti tekið út séreignarsparnað sinn og haft fullt valfrelsi um ráðstöfun hans (Forseti hringir.) vegna efnahagsþrenginganna. Þá kemur hins vegar skattgreiðslan.