143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:03]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra kærlega fyrir framsöguna. Það er mjög ánægjulegt og í raun sögulegt að nú skulum við fara að ræða þessi tvö frumvörp sem tengjast skuldamálum heimilanna sem voru einmitt meginstefið í síðustu kosningabaráttu, a.m.k. hvað minn flokk snertir og líka hinn ríkisstjórnarflokkinn. Ef maður spurði fólk um það sem því lá helst á hjarta voru það skuldamál heimilanna og nú er verið að svara þessu kalli.

Því ber að fagna og ég vona að þessi mál eigi greiða leið í gegnum þingið þannig að fólk geti byrjað að sækja um leiðréttingu sinna mála í maí.

Við erum nú að tala um frumvarpið um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar og mér er sérstaklega umhugað um fólk sem ekki hefur getað eignast sína fyrstu íbúð, yfirleitt ungt fólk. Á síðustu árum hefur ástandið verið þannig að mönnum sem vilja ekki vera á leigumarkaði hefur ekki verið gert kleift að komast upp úr því fari og festa sér eigið húsnæði. Með því að nýta séreignarlífeyrissparnaðinn í dag mun þetta svigrúm stóraukast að mínu mati. Tölurnar tala sínu máli.

Mig langar að spyrja hvort hæstv. fjármálaráðherra sjái ekki fyrir sér að stór hópur ungs fólks eða fólks sem er að byrja lífsbaráttuna geti einmitt farið núna með þessum leiðum og úttekt á séreignarlífeyrissparnaði (Forseti hringir.) út á fasteignamarkað og átt þar eðlileg viðskipti?