143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á mjög mikilvægan þátt þessa máls sem er rétturinn til að ráðstafa sparnaðinum til kaupa á fasteign. Það þarf ekki að vera fyrsta fasteign. Aðalatriðið er að á því tímabili sem við erum að opna fyrir, í þrjú ár frá 1. júlí, eigi viðkomandi ekki fasteign. Eigi hann fasteign á tímabilinu á hann rétt á að greiða inn á húsnæðislánið sitt en á meðan hann á ekki fasteign safnast upp réttur til að taka út á næstu fimm árum til kaupa.

Viðkomandi kann að hafa verið á leigumarkaði. Hann kann að hafa misst húsnæði sitt í hruninu. Hann kann að vera nýr á fasteignamarkaðnum, hafa verið leigjandi undanfarin ár eða vera að koma úr námi og ætla að kaupa sér sína fyrstu eign. Með þessu frumvarpi er hvatt til þess að viðkomandi nýti séreignarsparnaðarformið til að eiga þann möguleika að eiga fyrir útborgun í íbúðinni og þannig ýtt undir þá skynsamlegu hegðun, vil ég meina, að safna fyrir eins og hægt er höfuðstól til slíkrar fjárfestingar og getur með því vonandi stigið fyrsta skrefið í átt til þess að við beitum úrræðum stjórnvalda til að gera fólki auðveldara að stíga inn á fasteignamarkaðinn þegar að því kemur og færum hugsunina frá því að hjálpa fólki að eiga við hátt fasteignalán eftir að fólk er komið þar inn.

Það má segja að kjarninn í vaxtabótakerfinu sé að við setjum um það bil 10 milljarða á ári, tæplega það í dag, í vaxtabætur til að hjálpa fólki að glíma við há lán á háum vöxtum.

Þetta úrræði, segir hérna, nota stjórnvöld til að styðja viðkomandi til að eiga meira í íbúðinni frá fyrsta degi. Þannig dregur úr þörfinni fyrir vaxtabætur í framtíðinni og vonandi almennt vaxtakostnaði þess sem í hlut á. Þetta tel ég gríðarlega mikilvægt skref eins og hv. þingmaður (Forseti hringir.) kemur hér inn á og það eru mikil tímamót (Forseti hringir.) fólgin í þessari lagabreytingu ef af henni verður.