143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli þingheims og þjóðarinnar á því hvaða mál er til umræðu. Eftir langa bið eftir framsögu um hin miklu skuldaleiðréttingaráform ríkisstjórnarflokkanna er til umræðu frumvarpið um séreignarsparnað og ráðstöfun hans, þ.e. minni hlutinn eða sjálfstæðisflokkshlutinn af tillögum stjórnarflokkanna um úrbætur fyrir skuldug heimili. Þetta er sá hluti leiðréttingarinnar miklu sem við borgum sjálf, úr eigin vasa, án nokkurrar milligjafar og er ekki það sem Framsóknarflokkurinn lagði höfuðáherslu á í aðdraganda kosninga.

Frumvarpið um skuldaniðurfellinguna bíður framsögu, er hér hornreka á dagskránni, fylgir í humátt á eftir, enda er það orðið svo að það frumvarp er fyrir löngu síðan orðið algerlega óþekkjanlegt ef borið er saman við fyrirheitin stóru frá því í vor og jafnvel er það orðið þannig að það hefur skroppið svo stórum saman frá því sem formenn flokkanna létu í veðri vaka á víðfrægum fundi í Hörpu í lok nóvember að sjálfur formaður Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra, kannast ekki við krógann þegar honum eru í sjónvarpsþættir sýndir útreikningar sem byggja á hans eigin framsögn og á hans eigin kynningu á tillögum um skuldaniðurfellingu. Með öðrum orðum er búið að grauta svo í niðurfærslunni eða leiðréttingunni miklu frá því í lok nóvember og fram til framlagningar frumvarpsins í dag að sömu dæmi koma út með allt aðra efnislega niðurstöðu og forsætisráðherrann kemur af fjöllum þegar hann er spurður út í glærukynningu sem hann sjálfur stóð fyrir þegar hann situr fyrir svörum í sjónvarpssal. Það er þá eftir öðru og sýnir betur en nokkuð annað munaðarleysi þessara tillagna að þær skulu ekki settar í forgang af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að mæla fyrir málum er varða skuldug heimili og að þær skuli látnar reka hér á reiðanum og að fjármálaráðherra kjósi að hefja umræðuna á hugðarefni sínu sem er séreignarsparnaðarleiðin, sem ávallt var hugarfóstur sjálfstæðismanna í þessu máli öllu saman.

Málið sem er til umræðu lítur vel út við fyrstu sýn en hefur augljósa ágalla. Sú leið sem hér er lögð til eykur á misskiptingu, hún nýtist meðaltekjufólki síður en þeim sem mest hafa milli handanna og hún hyglir fjármálastofnunum umfram fólk.

Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því að í 1. gr. frumvarpsins — ég hef ekki tölu á öllum málsgreinunum og það er ekki auðvelt að vísa í málsgreinar en ég ætla að lesa málsgreinina, hún er þriðja síðasta mgr. 1. gr. Þar segir:

„Lánveitendur skulu ráðstafa greiðslum frá vörsluaðilum skv. 8. mgr. inn á höfuðstól valinna lána. Séu lán í vanskilum fer um greiðsluna eftir hefðbundinni greiðsluröð samkvæmt lánaskilmálum.“ Með öðrum orðum, lán fallin á gjalddaga, eins og kemur fram í greinargerð, eiga að greiðast fyrst, það á að greiðast fyrst inn á þau lán. En svo er bætt við hortitti sem lætur lítið yfir sér: „Hafi umsækjandi notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga nr. 63/1985, sbr. lög nr. 107/2009, skal fyrst greiða inn á skuld á jöfnunarreikningi.“

Með þessu ákvæði er fjármálastofnunum ívilnað á kostnað fólks og þeim hlíft við því að veita almenningi á eigin kostnað lánafyrirgreiðslu sem þeim var skylt að gera með lögum nr. 107/2009. Ég ætla aðeins að rifja upp það mál.

Greiðslujöfnun var komið á sem úrræði á 9. áratugnum og það dugði vel til að milda áhrif misgengis lánskjara og launa á þeim tímapunkti. Hún var aftur sett á í kjölfar efnahagshrunsins. En það voru mjög margir sem völdu hana ekki vegna þess að fólk sá þá fram á að lækkun greiðslubyrði lánanna mundi valda því að greiðslubyrðin mundi færast til í tíma og aukast seinna. Þess vegna var með lögum árið 2009 annars vegar kveðið á um að lánastofnunum væri skylt að þola það að lán lengdust að hámarki um þrjú ár við greiðslujöfnun þannig að sá hluti lánanna sem færi inn á greiðslujöfnunarreikning safnaðist upp en það væri aðeins að hámarki þrjú ár sem fólk þyrfti að borga af láninu til viðbótar, afgangurinn yrði afskrifaður. Jafnframt var kveðið á um það sérstaklega að fólk þyrfti að velja sig undan því að þiggja greiðslujöfnun. Niðurstaðan af því var að um 60% lántakenda eru með greiðslujöfnun á lánum sínum, gríðarlegur fjöldi. Og ríkisstjórnin ákveður það nú að hlífa fjármálafyrirtækjunum við því að þurfa að geyma þessar afborganir og mögulega afskrifa það sem lánin kunna að lengjast um meira en þrjú ár, algerlega án efnislegrar röksemdafærslu. Sú ákvörðun að ráðstafa peningum fólksins sjálfs fyrst inn á að greiða niður lán sem nú þegar eru í friði í bönkunum, í kæli og eru ekki á gjalddaga, felur í sér að verið er að þvinga fólk til að borga meira af lánunum sínum og fyrr en ella og það er verið að hlífa bönkum við hættunni af því að þurfa að afskrifa á venjulegt fólk ef efnahagsþróun verður á þann hátt að greiðslujöfnun leiðir til þess að afborgun af láninu lengist um meira en þrjú ár. Það er óskiljanlegt að sjá þetta. Það er óskiljanlegt hvaða nauðir rekur ríkisstjórnina til að taka fjármálastofnanirnar fremst í forgangsröðunina, hlífa þeim við afleiðingum laga sem fjármálafyrirtækin létu yfir sig ganga árið 2009, hlífa þeim við því að þurfa að horfast í augu við að þurfa kannski að tapa einhverjum krónum og byrja á því að láta fólk nota sinn eigin séreignarlífeyrissparnað til að borga skuldir sem koma ekki á gjalddaga fyrr en eftir áratugi. Þetta er óskiljanlegt, þetta er ósanngjarnt og þetta sýnir forgangsröðun sem felst í því að fjármálafyrirtækin koma fyrst og fólkið svo.

Virðulegi forseti. Þegar maður horfir á þetta frumvarp skilur maður af hverju maður fær aldrei svör frá hæstv. félagsmálaráðherra um stefnumörkun á sviði húsnæðismála eða um uppbyggingu leigumarkaðar. Það er vegna þess að það er ekki afstaða ríkisstjórnarinnar að byggja upp leigumarkað sem raunverulegan valkost í landinu. Hér er heilt frumvarp sem snýst um að höfuðboðorðið eigi að vera að fólk eigi að krafsa saman aurum til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði, eins og alltaf hefur verið hingað til. Það á ekki að byggja upp leigumarkað sem raunverulegan eða trúanlegan valkost. Það er hvergi í frumvarpinu tekið fram að hægt sé að nýta þessa uppsöfnun til þess einu sinni að kaupa sér búseturétt. Af hverju er á þennan hátt ákveðið að eina lausnarorðið eigi að vera kaup á almennum markaði þegar á hinn kantinn liggur fyrir mörkun heildstæðrar húsnæðisstefnu á undanförnum árum með þátttöku allra sveitarfélaga, allra hagsmunaaðila sem felur í sér markmið um uppbyggingu leigumarkaðar sem raunverulegs valkosts á húsnæðismarkaði? Það er alveg greinilegt að hæstv. fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan áhuga á því verkefni og hér er vegið að rótum þess. Auðvitað væri eðlilegt að hérna væri ákvæði sem gerði fólki kleift að nýta séreignarsparnað með einhverjum hætti til að koma sér í öruggt leiguhúsnæði eða kaupa búseturétt. Af hverju er það ekki?

Það var líka mjög undarlegt að heyra útfærslur hæstv. ráðherra á því áðan að þetta frumvarp væri raunverulega í þágu allra á sama hátt, líka í þágu lágtekjufólks, þegar það liggur fyrir í öllum greiningum að lágtekjufólk, sem eins og hæstv. ráðherra segir hefur vissulega stofnað til minni skulda og yfirleitt farið varlega í fjármálum, á mjög erfitt með að ná endum saman. Hæstv. ráðherra kemur hér, og minnir helst á drottninguna forðum daga sem ráðlagði hungruðum múgnum að seðja hungur sitt með því að borða kökur ef ekkert brauð væri til, og segir að það eigi bara að hvetja fólk til að fara að spara, það sé vandamálið. Fólkið sé ekki nógu duglegt að spara.

Hæstv. fjármálaráðherra verður að gera sér grein fyrir þeim efnislegu staðreyndum sem eru í glímunni við fjárhagsvanda heimilanna. Hann verður að gera sér grein fyrir misskiptingunni í landinu. Allar skýrslur og greiningar sýna okkur það svart á hvítu að lágtekjufólk á erfiðara en allir aðrir með að ná endum saman og hefur enga peninga aflögu. Það er ekki vegna þess að þetta fólk tekur illa í hugmyndir ráðherrans um að spara, sólundi peningunum sínum og sé óábyrgt í fjármálum. Það er einfaldlega vegna þess að launin eru lág, hæstv. fjármálaráðherra, og það er ekki hægt að tala af algeru skilningsleysi um hlutskipti láglaunafólks eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði áðan. Vandamálið er ekki viljaleysi fólks til að leggja fyrir. Vandamálið er skortur á ráðstöfunarfé. Vandamálið er að allar greiningar undanfarin ár sýna að láglaunafólk á erfiðara en nokkru sinni fyrr með að láta enda ná saman og það verður engin grundvallarbreyting á þeirri stöðu við þetta frumvarp. Þess vegna er frumvarpið til að auka á misskiptingu. Þeir sem hafa ráð á að leggja fyrir munu gera það og njóta til þess ríkisstuðnings og þeir sem hafa ráð á að leggja mikið fyrir fá mikinn ríkisstuðning til þess að hjálpa sér við að leggja fyrir og greiða niður lán. En þeir sem hafa lítið á milli handanna og geta ekki séð af fé til að leggja fyrir fá engan ríkisstuðning og þeir sem þó geta klipið og lagt hart að sér og klipið fé til að leggja fyrir, þar verður það þannig að eyrir fátæku ekkjunnar skiptir miklu minna máli en auður ríka mannsins í augum hæstv. fjármálaráðherra og umbunin sem ríkið veitir fátæku ekkjunni verður miklu minni heldur en umbunin sem auðmaðurinn fær. Það er sú grundvallarskekkja í öllu þessu máli sem veldur því að óhjákvæmilegt er að komast að þeirri niðurstöðu að það hefur eitthvert allt annað markmið en að vera raunveruleg úrlausn fyrir almenning í landinu. Það mun auka á misskiptingu. Það mun nýtast þeim best sem best standa fyrir. Það mun gera allra best fyrir þá sem hafa mest milli handanna til að leggja fyrir og á einhvern óskiljanlegan hátt mun það fylla alla vasa fjármálastofnana af peningum sem fjármálastofnanirnar hafa ekki einu sinni gert ráð fyrir að fá fyrr en eftir áratugi, og skyndilega er það gert að forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að greiða upp greiðslujöfnunarreikninga sem enginn banki hefur óskað eftir að verði greiddir upp og til þess á að nýta séreignarsparnað þjóðarinnar.

Það er erfitt að finna kost á þessu máli í ljósi þeirra staðreynda.