143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er stundum sagt þegar menn sjá ekki heildarsamhengi hlutanna að þeir sjái ekki skóginn fyrir trjánum. Hér var flutt dálítið makalaus ræða um ýtrustu tilvik þar sem meginregla málsins á ekki við. Meginefni þessa máls er að það eiga allir jafnan rétt á að nota sömu prósentutölu af launum sínum til að leggja inn á séreignarsparnaðarreikning til fasteignakaupa eða til að greiða niður lán. Þetta er almennur réttur sem allir eiga, bæði þeir sem hafa fram til þessa lagt fyrir í séreignarsparnað og líka þeir sem ekki hafa gert það fram til þessa en sjá núna hvata til að gera það. Þetta er allt hugsað til að létta fólki byrðarnar, hjálpa fólki til að greiða niður húsnæðislán sín. Þá er lagt á með mikla ræðu um að þetta nýtist sumum betur en öðrum, en þar er þó ekki farið rétt með vegna þess að þetta nýtist í nákvæmlega sömu hlutföllum og laun viðkomandi eru öllum þeim sem kjósa að nýta úrræðin. Annað er einfaldlega rangt og stenst ekki skoðun.