143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er engum borgað fyrir að leggja fyrir í þessu úrræði. Menn fá hins vegar skattalegan sparnað ef þeir ákveða að nýta séreignarsparnað í þeim tilgangi að greiða niður húsnæðislánin og létta þannig greiðslubyrði.

Það er svo að fólk þarf ekki fyrst að hafa staðið í skilum með mánaðarlega afborgun sína til að geta nýtt það úrræði. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að skattalegi sparnaðurinn sem er til staðar í séreignarsparnaðarleiðinni nýtist líka þeim sem fram til þessa hafa ekki séð möguleika á því að spara. Þeir hafa núna sérstakan hvata til þess vegna þess að þeir þurfa í dag að taka það til hliðar af venjulegum tekjum sínum sem nemur mánaðarlegu afborguninni. Það getur verið 60 þús. kr. afborgun, það getur verið 100 þús. kr. afborgun. Það eru ekkert annað en tekjur heimilisins sem geta risið undir þeirri afborgun.

Hér er komið úrræði til að fá sérstakan afslátt til að rísa undir nákvæmlega þeirri afborgun af láninu og ef menn vilja, til að greiða til viðbótar inn á lánið.