143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að mér þótti þetta furðuleg ræða hjá hv. þingmanni. Sérstaklega áhugaverður var sá þáttur hennar þegar hann talaði um að verið væri að hygla fjármálafyrirtækjum. Nú liggur fyrir að þetta gerir það að verkum að peningar sem færu í fjármálafyrirtækin fara ekki í fjármálafyrirtækin. Ég þekki þessa leið ágætlega, enda hef ég barist fyrir henni lengi, og ég get alveg lofað hv. þingmanni því að þessu er ekki tekið fagnandi af fjármálafyrirtækjum sem fá ekki lengur peningana inn á séreignarsparnaðarreikninga sína.

Í rauninni tekur hv. þingmaður þessa einu leið og segir: Hún er svakalega ósanngjörn. Hún er alveg svakalega ósanngjörn vegna þess að prósentulega, eðli málsins samkvæmt, kemur hærri skattafsláttur fyrir hærri upphæðir. Það eru rök hv. þingmanns. Ef þú ert með hærri tekjur borgar þú hærri séreignarsparnað og færð hærri skattafslátt. Það er rosalega ósanngjarnt. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann af því það eru sömu rök sem eiga við fjármagnstekjuskattinn sem er ekki á lífeyrissparnaði: Er það ekki jafn ósanngjarnt að ekki sé settur fjármagnstekjuskattur á lífeyrissparnað?