143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Höfuðgagnrýni mín lýtur ekki að prósentunni. Höfuðgagnrýni mín lýtur að því að verið er að búa til hvatakerfi í kerfi þar sem skortur á hvata er ekki vandamálið. (Gripið fram í.) Það er ekki skortur á vilja fólks til að leggja fyrir sem er vandamálið heldur skortur á ráðstöfunarfé fólks, getu lágtekjufólks og meðaltekjufólks (Gripið fram í.) til að leggja fyrir. Þess vegna felur kerfið óhjákvæmilega í sér umbun til þeirra sem hafa þegar efni á að leggja fyrir en nýtist á engan hátt þeim sem ekki hafa efni á að leggja fyrir.

Varðandi spurningu hv. þingmanns sérstaklega er það ósköp einfaldlega þannig að til dæmis í fjármagnstekjuskatti er frítekjumark svo að hann leggst með ólíkum hætti (Gripið fram í.) á háar fjármagnstekjur og lágar fjármagnstekjur. (Forseti hringir.) Ég er ekki að ræða prósentukerfið í skattkerfi almennt séð. Ég er bara að ræða það að hér er verið að búa til sérstakt hvatakerfi og ef hv. þingmaður (Gripið fram í.) er að hlusta (Forseti hringir.) á ræðuna — hv. þingmaður gæti kannski leyft mér að klára í þessa mínútu sem ég hef.

(Forseti (SilG): Forseti biður um að ræðumaður fái að klára.)

Það er ósköp einfaldlega þannig að verið er að búa til hvatakerfi og það hvatakerfi gengur ekki upp vegna þess að það er ekki skortur á umbun fyrir að leggja fyrir sem er vandamálið, heldur er það einfaldlega (Forseti hringir.) sú staðreynd að lágtekju- og meðaltekjufólk hefur ekki ráðstöfunarfé. (GÞÞ: Ekkert svar. Ekkert svar.)