143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það var farið í almennar aðgerðir á síðasta kjörtímabili og sértækar. Þær almennu aðgerðir sem farið var í er þessi ríkisstjórn nú að draga frá aðgerðum sínum. Til dæmis sérstakar vaxtabætur sem greiddar voru út án tillits til tekna, þær horfðu bara á skuldastöðu fólks og nýttust mjög vel á síðasta kjörtímabili, en þær verða nú allar dregnar frá leiðréttingu nýrrar ríkisstjórnar. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að afnumin verði almenna aðgerðin sem fólst í greiðslujöfnun, sem var að afborganir lækkuðu um allt að 20% og færðust aftast á lánið og bönkum var með lögum skyldað að afskrifa það ef það mundi leiða til meiri lengingar láns en um þrjú ár. Hér er verið að afnema það kerfi að ástæðulausu og verið er að skikka fólk með lögum, þessu frumvarpi hér, til að nýta sinn eigin séreignarsparnað til að borga upp (Forseti hringir.) greiðslujöfnunarreikninga sem búið er með lögum að skylda bankana til að þola að safnist upp. Það er óskiljanlegt.