143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð spurning hjá hv. þingmanni en erfitt að svara henni því að ríkisstjórnin kemst að tveimur ólíkum niðurstöðum í frumvarpinu sem lagt hefur verið fram um skuldaleiðréttingu. Annars vegar hefur hæstv. forsætisráðherra farið mikinn um að þetta sé stærsta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar og muni hafa mikil áhrif og hins vegar segir í greiningum sem hann hefur keypt að þetta muni ekki hafa nein efnahagsleg áhrif, og það er þegar hann þarf á því að halda að réttlæta að þetta muni ekki hafa neikvæð áhrif á verðbólgu, vexti og gengi. Það fer því eftir dagsformi hæstv. forsætisráðherra hvort búast megi við að það verði mikil efnahagsleg áhrif eða engin efnahagsleg áhrif af skuldaleiðréttingunni miklu. Ég held að þau verði einhver. Ég óttast að þau verði meira neikvæð en menn gera sér í fljótu bragði grein fyrir, en þau munu ekki auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks. Geiðsludreifingarspáin sýnir að niðurfellingarnar verða svo lágar hjá lágtekjufólkinu sem á erfitt með að leggja fyrir hvort eð er að ég á erfitt með að sjá að það muni skipta miklu um möguleika þess á að nýta sér þetta úrræði.