143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér annað af tveimur frumvörpum ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem ætlað er að standa undir þeim almennu aðgerðum sem lofað var í aðdraganda kosninga.

Hitt málið, sem snýst um niðurfærslu lána, er kannski sú leið sem hefur verið talsvert meira í umræðunni en sú sem hér er helst undir, þ.e. séreignarsparnaðarleiðin, og raunar hefur túlkun á þessu verið sú að séreignarsparnaðarleiðin komi frekar úr ranni Sjálfstæðisflokksins á meðan hin leiðin, sem er næst á dagskránni, komi fremur úr ranni Framsóknarflokksins.

Sú umræða sem hér hefur farið fram hefur verið ágæt því að hún hefur dregið fram ákveðna veikleika sem ég tel vera á þessu máli, sem er hin félagslega greining sem ég tel að þurfi að liggja til grundvallar öllum þeim aðgerðum sem hið opinbera ræðst í til að styðja við skuldug heimili. Það var áhugavert að hlusta á þau orðaskipti sem urðu um hvort það væri ekki eðlilegt að þeir sem hefðu hærri tekjur og gætu þar af leiðandi lagt meira af mörkum í séreignarsparnað fengju þar af leiðandi fleiri krónur í skattafslátt. Það getur alveg verið eðlilegt en þá tökum við ekki með í reikninginn að skattkerfið á að hafa jöfnunarhlutverki að gegna og erum við þá komin í ákveðinn grundvallarhugmyndafræðilegan ágreining sem er ástæða þess að við erum ekki öll í einum og sama flokknum. Það er auðvitað sú sýn félagshyggjufólks að skattkerfið eigi að nýta til jöfnunar. Þótt það sé alveg rétt sem hefur verið bent á, m.a. af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að hér sé vissulega horft á sömu tækifæri fyrir alla, eins og ég held að hann hafi orðað það í ræðu sinni, liggur líka fyrir að ekki er verið að beita neinum aðgerðum til að jafna aðstöðumun manna, þ.e. þeirra sem hafa lægri tekjur og fá þar af leiðandi færri krónur í skattafslátt og hinna sem hærri tekjur hafa og fá þar af leiðandi fleiri krónur í skattafslátt. Þarna er ákveðinn grundvallarágreiningur, sem ég benti á í andsvari mínu til hæstv. fjármálaráðherra, fyrir utan það að meiri líkur eru á því að þeir sem lægri hafi tekjurnar hafi ekki efni á því að leggja til hliðar í séreignarsparnað.

Auðvitað liggur ekki fyrir nein greining á því en það liggur samt fyrir að umtalsverður hluti fólks leggur ekki fyrir núna í séreignarsparnað. Þó að sú leið hafi verið kynnt rækilega að hægt sé að gera það liggur fyrir að tugir þúsunda einstaklinga leggja ekki af einhverjum ástæðum fyrir fjármuni til séreignarsparnaðar. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt verkefni fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að fara dýpra ofan í það mál og kanna hvort einhver leið sé til að greina þær ástæður nánar. Staðreyndin er sú að við erum með verulegan hóp fólks sem á erfitt með að ná endum saman um hver mánaðamót. Það er auðvitað stóra málið. Jafnvel þótt það fólk fái hvata með skattfrelsi er það hreinlega ekki aflögufært um leggja til hliðar. Það er sannarlega rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi leið leggi til ákveðinn hvata með skattfrelsinu, en spurningin er hvort allir geti nýtt þann hvata.

Ég gerði líka að umtalsefni áðan stöðu leigjenda. Á það hefur verið bent í fyrsta lagi að aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðist fyrst og fremst við þá sem hafa verið með verðtryggð lán á tilteknu tímabili. Að sjálfsögðu er þar verulegur hópur leigjenda sem var með lán á tilteknu tímabili en er það ekki lengur. Í fylgiskjali I með þessu frumvarpi er aðeins farið yfir þá sem eiga ekki fasteign og þar kemur fram að verulegur hluti þeirra sparar í séreign en meiri hluti þess hóps sparar ekki í séreign. Þá veltir maður líka fyrir sér hvernig þessi aðgerð mun virka fyrir þann hóp sem ég verð að segja að er þriðjungur allra heimila og er sá hópur sem ég hef mestar áhyggjur af á húsnæðismarkaði dagsins í dag. Segjum að hér hafi orðið forsendubrestur. Ég hef sagt að allir skattgreiðendur hafi orðið fyrir forsendubresti. Hér varð hrun og það hefur haft áhrif á líf allra í þessu samfélagi, á skattgreiðendur sem nú eru uppi og líka á komandi kynslóðir af skattgreiðendum, en svo sannarlega urðu leigjendur fyrir forsendubresti ef eigendur húsnæðis urðu fyrir forsendubresti. Það er nokkuð sem við verðum hreinlega að taka á. Það liggur fyrir að þessar aðgerðir koma ekki sérstaklega til móts við leigjendur. Bent hefur verið á að þeir geti þó farið í það verkefni ef þeir vilja, ef þeir kjósa að fara að leggja fyrir fyrir fasteign, með því að leggja inn á höfuðstól þótt þeir eigi enga fasteign. Þá veltir maður því fyrir sér hvort þar fari jafnvel saman lágar tekjur og það að eiga enga fasteign. Allt þetta tel ég að þurfi að greina eða að minnsta kosti gera atlögu að því að greina í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og kanna rækilega, því að það hljóta að liggja fyrir ákveðnar upplýsingar. Ég minni á að hér var samþykkt frumvarp um heimildir til handa Hagstofunni til að afla verulegra upplýsinga sem áttu að nýtast við þessa vinnu alla saman. Nú skilst mér að þær upplýsingar liggi ekki allar fyrir og hafi ekki verið nýttar, nema að litlu leyti alla vega, í greinargerð frumvarpsins. Það hlýtur því að vera ástæða til þess fyrir hv. nefnd að kalla eftir því hvernig gangi að afla þeirra upplýsinga til að við getum áttað okkur á því hvernig þessi á leið eftir að nýtast þeim sem lægri hafa tekjurnar.

Það er sammerkt með þessum tveimur frumvörpum sem eru á dagskrá að mat skortir á félagslegum áhrifum og félagslegri greiningu, því að það má segja það sama um frumvarp um niðurfellingu skulda sem er á dagskrá á eftir að þar liggur ekki heldur fyrir nákvæmlega hvernig hún dreifist. Þá erum við, eins og ég sagði áðan, komin að þeim grundvallarmun sem tengist hugmyndafræði, þ.e. hvort við teljum að aðgerðir stjórnvalda eigi að miða að því að jafna aðstöðumun eða hvort við ætlumst til þess að aðgerðir þeirra skili okkur öllum á pari. Það er alveg ljóst af hálfu ríkisstjórnarinnar að það er ekki ætlunin að fara í neinar jöfnunaraðgerð með þessum aðgerðum. Það er auðvitað umhugsunarefni og sýnir mjög skörp skil því að segja má um aðgerðir síðustu ríkisstjórnar að þær miðuðu allar að því að koma til móts við þá sem voru tekjulægri, til að mynda með hinum sérstöku vaxtabótum, og þá sem áttu í mestum greiðsluerfiðleikum, þá sem áttu í mestum vanda við að ná endum saman um hver mánaðamót.

Hér er stuttur tími til að fara yfir stórt og mikið mál. Ég gerði stuttlega að umtalsefni í andsvari áðan framtíðartekjumissi ríkis og sveitarfélaga þar sem við erum í raun að tala um gríðarlega meðgjöf af skatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Það verður að athuga að ég er ekki í færum til að kanna það nákvæmlega og tel mjög mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd kanni það en nafnfjárhæð skattafsláttarins núna segir aðeins hálfa sögu því að eins og liggur fyrir fer upphæðin skattfrjáls inn á höfuðstólinn þannig að ríki og sveitarfélög fá ekki þennan skatt eða þetta útsvar. Ef upphæðin hefði farið í séreignarsjóð hefði fjárhæðina tekið ávöxtun, hún hefði hækkað. Þegar hún væri greidd út hefði hún tekið myndarlega ávöxtun. Ég tel að það þurfi að kanna þegar áætlanir fjármála- og efnahagsráðuneytis eru skoðaðar um tekjutap ríkis og sveitarfélaga í framtíðinni, sem eru í greinargerð frumvarpsins, hvort gert sé ráð fyrir þeirri ávöxtun í tekjutapinu. Það þarf væntanlega að skoða ítarlega í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Síðan er það spurning sem við hljótum að velta fyrir okkur, hvaða áhrif þetta muni hafa á lífeyriskerfið. Ef fólk ákveður að fara þessa leið dregur það um leið úr greiðslum sínum í séreignarsparnaðinn sem hefur auðvitað áhrif á lífeyrisstöðu þess í framtíðinni. Við þekkjum það öll á þessum vettvangi að þetta er eitt af stóru málunum sem er til umræðu í öllum vestrænum ríkjum, þ.e. hækkandi aldur þjóða og hvernig megi renna styrkum stoðum undir lífeyriskerfi fólks þegar það kemst á þann aldur.

Það er kannski ekki auðvelt að átta sig á því út frá þessu því að þarna er um að ræða hvaða áhrif nákvæmlega það getur haft, en maður veltir því fyrir sér hvort þetta hafi í för með sér aukið álag á almenna tryggingakerfið til lengri tíma. Þetta er mál sem er mjög „aktuellt“ núna, það er 400 milljarða inngreiðsla í B-deild LSR yfirvofandi. Við horfum upp á framtíðarsýn þar sem liggur fyrir að skoða þarf lífeyrissjóðakerfið. Ég velti fyrir mér áhrifunum af þessari aðgerð almennt.

Að lokum vil ég segja um þessi mál að tekjutap framtíðar, sem ég ræddi aðeins áðan, veikir stöðuna til lengri tíma því að þótt hér séu ekki bein framlög úr ríkissjóði er eigi að síður verið að horfa á tekjutap ríkis og sveitarfélaga. Gott og vel. Það er rökstutt með því að þannig skapist aukin velta í hagkerfinu, aukin einkaneysla sem komi í hlutanna stað og verði þar af leiðandi til tekjumyndunar fyrir ríki og sveitarfélög. Eigi að síður spyr maður sig um sjálfbærni þess vaxtar sem byggir á aukinni einkaneyslu og að ráðist sé í að skerða tekjurnar á þennan hátt þegar við horfum á stöðuna annars vegar þegar kemur að skuldum þjóðarbúsins, og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í fjölmiðlum á dögunum að hann teldi að hér þyrfti að greiða niður skuldir þjóðarbúsins um 17 milljarða á ári, ef ég man rétt eftir honum haft. Á sama tíma horfum við upp á feikilega erfiða stöðu í innviðum samfélagsins. Ég geri sérstaklega að umtalsefni framhaldsskólana af því að þar hefur verið erfið staða undanfarnar vikur og auðvitað miklu lengur. Skólarnir hafa átt í verulegum örðugleikum og erfiðum rekstri og kennarar setið eftir í kjörum. Ég nefni líka háskólana sem hafa alls ekki verið til umræðu en hafa í raun verið vanfjármagnaðir áratugum saman.

Við vitum þegar við skoðum vöxt og á hvaða forsendum hann byggir að fjárfesting í þessum geira, menntun, rannsóknum, nýsköpun, er sú fjárfesting sem skilar samfélaginu mestum vexti til lengri tíma. Aðgerð sem þessi mun því vissulega hafa í för með sér ákveðna aukna einkaneyslu, hún mun hafa í för með sér einhvern vöxt en er sá vöxtur byggður til lengri tíma og skerðum við möguleika okkar á því að fjárfesta í því sem ég nefndi áðan, menntun og rannsóknum, með því að skerða tekjur til lengri tíma? Þetta eru stórar spurningar sem þarf að velta upp. Þær eiga líka við þegar við ræðum hitt frumvarpið sem verður síðar á dagskrá og snýst um hvernig við verjum þeim fjármunum sem við tökum inn í gegnum skattkerfið, hvernig við forgangsröðum þeim fjármunum og hvort skynsamlegt sé til lengri tíma að gera það með því að úthluta þeim til fólks á þann hátt sem þar er lagt til eða hvort skynsamlegri forgangsröðun sé að horfa til niðurgreiðslu skulda og uppbyggingar þessara innviða. Með hvorri leiðinni sköpum við langtímavöxt í samfélaginu? Það skiptir fólkið í landinu væntanlega mestu máli þegar til lengri tíma er horft, hvort sem er á okkur sem erum hér nú eða á komandi kynslóðir.

Þetta eru stóru spurningarnar. Ég er hins vegar ekki að segja að allt sé slæmt við frumvarpið. Ég held sannarlega að þetta geti verið eitthvað sem er ástæða til að framkvæma. Ég ætlast að sjálfsögðu til að frumvarpið fái ítarlega meðferð í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en maður sér að þetta gæti verið fýsileg leið, ekki síst fyrir þá sem yngri eru, að horfa til þess að fjárfesta fremur í íbúðarhúsnæði en að vera að huga að lífeyrissparnaði, og til þess að auðvelda fólki að komast áfram og eignast sína fyrstu eign. Að sama skapi væri gott að ræða það samhliða þeirri nýju húsnæðisstefnu sem er verið að móta og hvort það sé endilega rétta leiðin að halda áfram með séreignarstefnuna. Við erum á ákveðnum tímamótum hvað hana varðar. Ég hef því miður ekki tíma til að fara út í það en við erum á ákveðnum tímamótum þegar við horfum núna á að ungt fólk á almennt í erfiðleikum með að festa kaup á sinni fyrstu eign. Ætlum við að halda áfram þeirri séreignarstefnu sem verið hefur og reyna að auðvelda ungu fólki að eignast íbúð, eða ætlum við að fara í að byggja upp leigumarkað til að auðvelda fólki að komast í öruggt húsnæði undir öðrum formerkjum? Þetta eru stórar spurningar sem væri gott að hafa undirliggjandi í umræðunni.