143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var málefnaleg og tók á ýmsum þáttum. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á öllu því sem hv. þingmaður var að fara. Það er eins og hv. þingmaður sé ekki fylgjandi því að auka ráðstöfunartekjur fólks og sé ekki fylgjandi því sem augljóslega mun gerast, þ.e. að greiðslubyrði margra einstaklinga lækki ef þeir kjósa að nýta þetta úrræði. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta sé réttur skilningur eða hvort hún sjái það sem jákvæðan þátt.

Hv. þingmaður var líka á svipuðum stað og hv. þm. Árni Páll Árnason, þ.e. að óréttlæti væri falið í því að skattafslátturinn væri hærri eftir því sem fólk hefði hærri tekjur, af því að þetta er reiknað í prósentum. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé þá fylgjandi því að tekinn sé upp fjármagnstekjuskattur á séreignarsparnað og lífeyrissparnað. Það má nota nákvæmlega sömu röksemd þar. Það er ekki nokkur vafi á því að sá tekjuafsláttur kemur sér betur fyrir þá sem eiga hærri lífeyriseign og hærri séreign þar sem þeir hafa hærri tekjur og greiða þar af leiðandi meira inn.

Ég vildi spyrja hv. þingmann að þessu tvennu. Og úr því að hv. þingmaður vísaði í ávöxtunina þá er einn þáttur í því sem lítið hefur verið ræddur af hv. þingmönnum, þ.e. að afskaplega litlar líkur, ef nokkrar, eru á því að ávöxtun á séreignarsparnaði, jafnvel þó að yfirgengilega vel mundi ganga, nái vaxtastiginu á húsnæðislánum á Íslandi. Jafnvel þó að vextir mundu lækka eru litlar líkur á að ávöxtunin næði því. Ég spyr hv. þingmann í þriðja lagi hvort honum finnist það ekki kostur að með þessari leið hjálpum við fólki. Fólk mun hagnast á því að greiða lánin sín niður og ber þar af leiðandi minni vaxtakostnað en sem nemur ávöxtuninni á séreignarsparnaðinum sem það á.