143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi að afborganir af lánum lækka og þar með aukist ráðstöfunartekjur. Ég held við séum sammála um að það sé gott að auka ráðstöfunartekjur en mér finnst mikilvægt að aðferðafræðin á bak við það byggi á þeirri langtímahugsun sem ég fór yfir hér áðan. Ég held reyndar að margir séu sammála mér um það.

Ávöxtunin sem hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu — það sem ég var að benda á þar er að þegar, í greinargerð frumvarpsins, er verið að meta framtíðartekjutap ríkis og sveitarfélaga vegna skattafsláttar þá sýnist mér ekki gert ráð fyrir að þessar fjárhæðir hafi ávaxtast sem þær annars mundu gera. Það er eingöngu það sem ég var að benda á að mér fyndist mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd færi yfir og greindi í sinni vinnu þannig að við fengjum sem besta og skýrasta mynd af því. Hér er auðvitað líka um það að ræða hvernig við förum með okkar sameiginlegu sjóði til framtíðar.

Hv. þingmaður gerði að umtalsefni þau rök sem ég hef hér farið yfir, þessi jöfnunarrök í skattkerfinu, og vildi meina að þau ættu þá líka við um lífeyrisgreiðslur og aðrar greiðslur. Nú hef ég til að mynda staðið að því, varðandi fjármagnstekjuskatta á eignir fólks, að setja frítekjumark sem miðaði að þessum sömu jöfnunaráhrifum. Það hefur líka verið gagnrýnt hve lengi fjármagnstekjuskatturinn var lágur, á þær tekjur sem fólk hafði upp úr því; þá er ég raunar ekki að tala um lífeyrisgreiðslurnar sjálfar. Hann var þar af leiðandi hækkaður en sett á ákveðið frítekjumark. Ég tel að við eigum að horfa á þetta í þeirri aðgerð til að mynda. Þar voru þessi sömu jöfnunarsjónarmið undir.