143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Skuldamálin voru að mörgu leyti mál málanna á síðasta kjörtímabili og þau voru mjög mikið rædd í síðustu kosningabaráttu. Mjög mikið hefur verið gert varðandi skuldir heimila, raunar fyrirtækja líka, enda var það mjög aðkallandi mál í eftirleik hrunsins. Við horfðum á samfélag sem mögulega hefði getað farið í fjöldagjaldþrot með tilheyrandi hörmungum og eignarýrnun og enn frekari gjaldþrotum. En sem betur fer var ýmislegt gert. Í kosningabaráttunni var síðan mjög mikið talað um nauðsyn enn frekari aðgerða og talað um mjög kostnaðarfrekar og stórar aðgerðir í því sambandi en nú eru komin fram, út úr þeirri vinnu sem boðuð var, tvö frumvörp.

Við í Bjartri framtíð höfum ætíð varað við hugmyndinni um almenna skuldalækkun eins og hún var kölluð, og hefur fengið nafnið leiðrétting og er hitt frumvarpið. Við höfum tekið afstöðu gegn því. Okkur finnst það óskynsamleg notkun á almannafé og ómarkviss viðureign við skuldavandann. Við höfum hins vegar léð máls á svipuðum útfærslum og eru til umræðu í þessu frumvarpi um að fólki gæfist kostur á því að nýta greiðslur inn á séreignarlífeyrissparnað til að greiða inn á húsnæðislánin sín. Kosturinn við það er að um er að ræða valkost og valkostir geta verið af hinu góða, að fólki bjóðist að fara úr einu sparnaðarformi yfir í annað, ef við segjum að húsnæði sé sparnaðarform, sem það er. Við höfum því sagt að þetta væri kannski eitthvað sem hægt væri að gera. En það eru fjölmargir gallar á þessu og ég geri ráð fyrir að við munum fara ítarlega í saumana á því í efnahags- og viðskiptanefnd.

Fyrir það fyrsta blasir sú áleitna spurning við hvort séreignarlífeyrissparnaðarformið á Íslandi sé ónýtt. Frá 2009 hafa Íslendingar getað tekið út séreignarsparnaðinn sinn og notað hann til annarra hluta en til lífeyris á efri árum. Þeir hafa tekið út, Íslendingar, held ég, um 100 milljarða af séreignarsparnaði sínum til að nota í annað. Í því felst að stór hluti Íslendinga mun augljóslega ekki njóta þess sparnaðar á lífeyrisaldri, heldur er að nota þann sparnað núna. Í sjálfu sér er því ekkert nýtt í frumvarpinu annað en að verið er að gefa fólki kost á því að nota — fólki sem er líklega, margt hvert, búið með sinn séreignarlífeyrissparnað, hefur þegar tekið hann út — inngreiðslurnar sem berast á þremur árum til að greiða inn á húsnæðislán. Þetta er bara svona í framhaldi af þeirri aðgerð. Raunar er verið að hvetja fólk til að taka enn meira út af séreignarlífeyrissparnaði sínum með því að veita skattfrelsi og skattfrelsið er í raun bara fyrirframgreiðsla á ávöxtuninni sem annars yrði.

Ég velti fyrir mér hver stóri lærdómurinn er sem draga megi af því að á tíu ára tímabili séu Íslendingar að nota séreignarlífeyrissparnaðinn sinn í allt aðra hluti en lífeyri; hvort draga megi þann lærdóm af því að þetta samfélag, sem er mjög hneigt til skammsýni í efnahagsmálum, höndli ekki séreignarlífeyrissparnaðarformið. Það er ekki gert fyrir okkar hugarfar í efnahagsmálum, virðist vera.

Hvenær mun sá tími renna upp að við förum að telja skynsamlegt að séreignarlífeyrissparnaðurinn renni ekki til ýmislegs sem borga þurfi í núinu heldur renni í lífeyri? Hvenær munum við taka þá ákvörðun í þessum þingsal? Við höfum ítrekað framlengt heimild til að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn og nú ætlum við að hvetja til þess að hann verði notaður í aðra hluti. Mér finnst þetta vera sú áleitna spurning sem blasir við.

Varðandi úrræðið sjálft er í raun verið að greiða ávöxtunina út í formi skattaívilnunar, einhvern 500 þúsund kall að hámarki. Ég vona að fólk vegi og meti hvort það vilji nota þetta úrræði, vegna þess að ef það tekur út þennan pening og setur inn í húsnæðislánin mun það ekki njóta þessara peninga á efri árum, það verður að vera alveg á hreinu. Fólk verður að vega það og meta hvort það vilji það. En í frumvarpinu segir, hv. þm. Árni Páll Árnason hefur meðal annars vakið athygli á því, að hafi umsækjandi notið greiðslujöfnunar á grundvelli laga nr. 63/1985, sbr. lög nr. 107/2009, skuli fyrst greiða inn á skuld á jöfnunarreikningi.

Þar með finnst mér þetta úrræði eiginlega ónýtt. Greiðslujöfnunin var eitt af þeim úrræðum sem gripið var til í eftirleik hrunsins og eitt af þeim úrræðum sem ég held að margir séu jafnvel búnir að gleyma. Það snerist um að taka kúfinn af hærri afborgunum af verðtryggðum lánum og setja hann inn á biðreikning sem biði afborgunar þar til síðustu árin á afborgunartíma lánsins. Þessi biðreikningur á ekki að lengja afborganir lánsins nema um þrjú ár að hámarki. Þessi biðreikningur á löngu láni, ef hann safnast upp, felur í sér að bankarnir afskrifi kúfinn í lokin. Bankarnir hafa fallist á að afskrifa þennan hluta lánsins eftir mörg ár í mörgum tilvikum.

Það að þessi ráðstöfum séreignarlífeyrissparnaðarins skuli fyrst eiga að renna inn á þennan biðreikning þýðir auðvitað að þetta tiltekna úrræði er ónýtt. Vegna hvers skyldi fólk nota séreignarlífeyrissparnaðinn sinn til þess að greiða niður lán sem bankarnir hafa þegar fallist á að þeir muni afskrifa seinna meir? Greiðslujöfnun einstaklinga hjá Íbúðalánasjóði einum hefur numið 6,7 milljörðum, þannig að þeir sem hafa tekið lán hjá Íbúðalánasjóði og nýta sér þetta úrræði, lífeyrissparnaðinn, lenda í því að hann mun væntanlega fyrst fara í að greiða þá 6,7 milljarða sem Íbúðalánasjóður hefur þegar fært til bókar sem úrræði í skuldamálum. Mér finnst nú þurfa að ræða þetta í efnahags- og viðskiptanefnd.

Mér finnst almennt sá tími kominn, í umræðu um skuldamál heimilanna og ástandið í samfélaginu, að við þurfum einfaldlega að fara að ræða hagstjórn. Við verðum að hætta að ræða sérstaklega um skuldamál heimilanna. Við þurfum með öðrum orðum að fara að innleiða þá hugsun inn í þessa umræðu alla að búa til skilyrði fyrir heimilin sjálf til að glíma við skuldir sínar og lækka þær. Við þurfum að búa til stöðugt efnahagsumhverfi, við þurfum fjölbreytt atvinnulíf, miklu fjölbreyttara, sem kemur að mörgu leyti með stöðugu efnahagsumhverfi. Við þurfum að setja pening í nýjar atvinnugreinar sem geta vaxið og skapað fjölbreytt atvinnulíf, sem hækkar laun, sem bætir kjör. Við þurfum að ráðast í nauðsynlegt viðhald á innviðum samfélagsins, í velferðarkerfinu, vegakerfinu, í raun úti um allt. Þetta er einfaldlega kostnaður sem safnast upp og við megum afskaplega lítið við því að láta þann kostnað safnast upp og veita, eins og í þessu tilviki, skattafslátt upp á einhverja tugi milljarða.

Við verðum að hugsa fram í tímann. Hér erum við ekki að því. Það vita allir að ógnarstór vandi blasir við í lífeyrismálum þjóðarinnar. Það safnast upp skuldbindingar, tölur upp á 900 milljarða eru nefndar alveg í okkar tíð, og við erum að velta öllum þeim kostnaði, öllum þeim viðfangsefnum, yfir á börnin okkar. Það liggur í eðli þessa frumvarps að við ætlum að taka skatttekjur, sem annars væru skatttekjur barna okkar, til að glíma við alls konar mál sem koma upp í framtíðinni, og nýta þær skatttekjur fyrir okkur núna.

Mér finnst þetta röng hugsun, mér finnst þetta röng nálgun. Mér finnst að við eigum að fara að einbeita okkur að því reyna að bæta grundvöllinn í íslensku samfélagi og fara að innleiða einhverja langtímahugsun, að fara að að hugsa um 21. öldina, hvernig hún lítur út og setja okkur þá alla vega plan um það: Hvenær ætlum við að hætta að nýta allan okkar forða núna? Það er það sem við erum að gera í þessu og höfum verið að gera með séreignarlífeyrissparnaðinn. Við erum að hvetja til þess að fólk geti nýtt hann núna, og það er slæmt.

Það er ágætlega rakið, í skýrslu Seðlabankans um gjaldmiðilsmál sem kom út fyrir ári, hvernig það hefur verið einkenni á íslensku efnahagslífi að vöxtur á einkaneyslu hefur verið mjög sveiflukenndur, eiginlega alveg út úr korti miðað við vöxt á landsframleiðslu og virðist reyndar tengjast mjög sveiflum í gengi. Það sem er einkar slæmt er að almenningur hefur ekki haft sparnað til að mæta þeim sveiflum í einkaneyslu sinni; í raun segir skýrsla Seðlabankans að ráðdeild skorti í heimilisbókhaldinu.

Vissulega hefur sparnaður verið fyrir hendi, annars vegar í lífeyriskerfinu og hins vegar í húsnæði. Húsnæði sem sparnaðarform nýtist mjög illa til sveiflujöfnunar. Fólk getur ekki alltaf rokið til og selt húsnæðið sitt þegar illa árar og lífeyrissparnaður er almennt til notkunar á efri árum. Það sem mér virðist hafa verið að gerast, og er að gerast, er að við höfum á undanförnum árum og erum núna að nota séreignarlífeyrissparnaðinn sem þennan forða til sveiflujöfnunar í samfélagi þar sem einkaneysla hefur ekki einkennst af ráðdeild og sparsemi. Mér finnst það vera næsta verkefnið í íslenskri hagstjórn að innleiða meiri ábyrgð í fjármálum og innleiða meiri langtímahugsun. Mér finnst við ekki vera að gera það í þessum tveimur málum sem varða skuldamál heimilanna.