143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:34]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir ræðuna. Ég get tekið undir orð hans að hagstjórn er mikilvæg, ábyrg hagstjórn er mjög mikilvæg, ég get tekið undir þau orð, og ég er bara bjartsýn á að hér muni það takast með þeirri efnahagsstefnu sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur í stefnu sinni.

Það eru nokkur atriði sem ég hjó eftir í ræðu hv. þingmanns, ef ég hef ekki misskilið hann, þar sem hann talaði um að stór hluti þeirra sem hafa lagt fyrir séreignarsparnað og hafi tekið hann út í hruninu — og það er vissulega rétt hjá honum, það gerði mjög stór hluti fólks til að reyna að bjarga sér og reyna að ná endum saman — muni þá líklega, eða einhver hópur, ekki geta nýtt sér séreignarsparnaðinn. En eins og kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu er verið að tala um séreignarsparnað næstu þriggja, fjögurra ára, en ekki það sem við höfum safnað á undanförnum árum.

Einnig talaði hann um að almenna aðgerðin væri fjármögnuð með almannafé, en þar erum við hv. þingmaður ekki sammála vegna þess að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að fjármagna almennu skuldaaðgerðina með bankaskatti, fjármagni sem kemur af honum inn í ríkissjóð sem deilist síðan eða fer inn á þessi lán.

Tíminn er að verða búinn, ég kem með síðustu spurninguna á eftir.