143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Flestallt sem ríkissjóður gerir er fjármagnað með skattheimtu, ekki satt? Skattarnir heita alls konar nöfnum og eru teknir af alls konar aðilum. Svo er það sérstakt viðfangsefni, er það ekki, í þessum þingsal að ákveða hvernig því skattfé er deilt út, þannig að skuldaleiðréttingaáform ríkisstjórnarinnar eru að mínu viti því marki brennd. Þessar aðgerðir eru fjármagnaðar af skattfé og það finnst mér þurfa að ræða og við gerum það væntanlega áfram á mánudaginn.

Hv. þingmaður misskildi orð mín, ég var kannski ekki alveg nógu skýr. Ég veit vel í hverju áformin felast varðandi séreignarlífeyrissparnaðinn í þessu frumvarpi, að gert er sem sagt ráð fyrir að inngreiðslur næstu þriggja ára inn á séreignarlífeyrissparnað geti runnið inn á húsnæðislán. En það sem ég er að segja er að þetta kemur í framhaldi af því að fólk hefur verið að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn sem það átti og hefur þess vegna alveg getað ráðstafað allri þeirri inneign inn á húsnæðislánin sín. Út af fyrir sig er ekkert nýtt að gerast hér annað en að framtíðargreiðslurnar næstu þrjú ár fyrir fólk sem örugglega í mörgum tilvikum er búið með alla inneign sína á séreignarlífeyrissparnaðarreikningi geta þá líka runnið inn á húsnæðislán.

Í raun og veru sýnist mér að í mörgum tilvikum geti þetta líka orðið til þess að fólk noti peningana jafnvel í aðra hluti en að greiða inn á húsnæðislán vegna þess að í mörgum tilvikum eða í flestum tilvikum mun veðrými aukast á íbúð. Og það geta allir nýtt sér þetta og eflaust munu margir nýta sér það til að greiða niður lán ef veðrými myndast og fá þá nýtt lán hjá lánastofnun til að fjármagna eitthvað annað, t.d. einkaneyslu. Út frá því sjónarmiði gæti þetta verið dæmi um afskaplega slæma hagstjórn.