143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð studdum það að bankaskatturinn með þeirri prósentu sem samþykkt var yrði lagður á og þeir peningar kæmu inn í ríkissjóð. Við teljum hins vegar að hægt sé að nýta þá peninga til hagsbóta fyrir heimilin og samfélagið allt með markvissari hætti en skuldatillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Það er skoðun okkar og það munum við rökræða væntanlega þegar þær tillögur koma til umfjöllunar. Svo vil ég hvetja hv. þingmann til að fagna þeirri tillögu sem við erum að ræða núna ekki um of. Eins og ég fór yfir í ræðu minni að þó svo að vissulega sé hægt að vera jákvæður í garð þess að hér séu skapaðir valmöguleikar fyrir fólk að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn sinn, eins og það er búið að vera að gera í stórum stíl, þá finnst mér mjög mikilvægt líka að hafa uppi varnaðarorð. Fólk verður í langflestum tilvikum gamalt og það mun þurfa peninga þá. Og allt þetta kerfi var upphaflega hannað til þess að fólk hafi peninga þá. Það er mjög varhugavert og ég held að við séum komin langt fyrir strikið í því að hvetja fólk til þess að taka út þennan framtíðarlífeyri sinn akkúrat núna. Við erum að mörgu leyti að segja við fólk sem er á besta aldri, besta vinnualdri, að það eigi að nýta þann pening núna og ekkert að hugsa um framtíðina í raun og veru.

Lífeyrisvandinn verður tröllaukinn í framtíðinni. Allar vísbendingar eru um það og við, þessi kynslóð, verðum auðvitað að spyrja okkur: Ætlum við að biðja börnin okkar um að greiða okkur þann lífeyri sem við erum að taka út núna? Eða ætlum við að segja núna: Þetta reddast einhvern veginn?