143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. En ég verð að viðurkenna að ég vil kannski fá aðeins betri skýringar hjá hv. þingmanni þegar hann talar um að ef menn fari þessa leið — ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni sem segir að þetta sé leið sem hafi staðið til boða. Hér er um það að ræða að þú mátt velja að greiða inn á lánið þitt og færð skattafslátt á móti. Áður fyrr var það þannig, og er að vísu mögulegt enn þá, að þú getur tekið út lífeyrissparnað þinn og getur gert það sem þú vilt við hann, þ.e. séreignarsparnaðinn. Það er allt önnur leið, fyrir utan það að borga þarf tekjuskatt af honum. Það er alveg grundvallarmunur þarna á.

Ég veit ekki um neina betri sparnaðarleið ef hugsað er til framtíðar en að greiða niður skuldir. Þetta er ekkert sérstaklega flókið. Við erum nú ekki langt frá hvor öðrum í aldri, ég og hv. þingmaður, en telur hv. þingmaður að það sé til einhver sparnaðarleið sem gefi betri ávöxtun yfir langan tíma en sem nemur vaxtakostnaði á húsnæðislánum í dag? Ég veit ekki um neina sparnaðarleið í heiminum, neina vísitölu sem nær 3,5% ávöxtun, hvað þá um 4–6% vexti plús verðtryggingu. Að auki má bæta ofan á ávöxtunina 40% skattafslætti. Er til einhver slík leið sem hv. þingmaður veit um? Ef hann veit um hana þá er hv. þingmaður fjármálasnillingur. Nú veit ég að hv. þingmaður býr yfir ýmsum hæfileikum og ég mundi vilja að hann upplýsti það ef hann veit um eitthvað slíkt. Enginn vafi er á að hvor sín hliðin er á sama peningnum, þ.e. lífeyrisgreiðslur og skuldir. Ef hv. þingmaður er í þeirri stöðu að vera kominn á lífeyrisaldur og skulda mikið eða skulda í húsnæði sínu þá mun það koma niður á framfærslu hans.

Séreignarleiðin á sínum tíma var öðruvísi en lífeyrissparnaður almennt. Hún var hugsuð sem viðbótarsveigjanleiki. Það er núna í lögunum og hefur verið frá fyrsta degi að fólk getur tekið sparnaðinn út um sextugt. Flestir eru þá að vinna, (Forseti hringir.) og vinnualdurinn mun örugglega lengjast enda lífaldurinn að hækka.