143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef setja ætti upp eigna- og skuldalista fyrir dæmigerðan Íslending þá væri hann einhvern veginn þannig: Dæmigerður Íslendingur á ekki neitt og skuldar ekkert þegar hann er tvítugur, um þrítugt skuldar hann mjög mikið, á tiltölulega lítið, um fertugt skuldar hann enn mjög mikið, komin væri pínulítil lífeyriseign og annað slíkt. Um fimmtugt er þetta aðeins farið að jafnast. Upp úr sextugu á hann skuldlausa eign og mjög mikil lífeyrisréttindi ef hann hefur greitt í lífeyrissjóð og séreignarsjóð.

Síðan gengur það kerfi ekki alveg upp meðal annars vegna þess að menn ná ekki ávöxtun í lífeyrissparnaði, hvorki í lífeyrissjóðum né séreignarsparnaði, einfaldlega vegna þess að mjög erfitt er að halda uppi því vaxtastigi sem ég nefndi og hv. þingmaður kom ekki inn á. Það sem snýr að því að ef þú berð saman valkostina, þ.e. lífeyrissparnaðinn og húsnæðisskuldina þína, þá er húsnæðisskuldin alltaf með miklu hærri vexti. Ef þú ert kominn á þann stað, segjum bara að þú hafir tækifæri og þú bætir t.d. alltaf í húsnæðislánið þitt eða eitthvað slíkt eða hvernig sem það er, alla vega ef þú skuldar mikið í húsnæðinu þegar þú ert kominn á aldur þarftu þeim mun hærri lífeyri þó að þú ætlir ekki að selja húsnæðið til að greiða af láninu.

Ef upp koma einhver áföll, ég hef því miður hitt fólk sem hefur lent í áföllum og skuldar mikið þegar það er komið á lífeyri, því fólki eru allar bjargir bannaðar. Það er auðvitað lífeyrir fólginn í því að eiga skuldlausa eign. Ef þú vilt búa þar áfram þarftu ekki að greiða af henni þann kostnað. Sömuleiðis fara margir þá leið að minnka við sig og selja, þar af leiðandi fá þeir fjármuni við það. Hin hliðin á lífeyrissparnaðinum eru skuldirnar. Og án nokkurs vafa er besta ávöxtun sem þú getur fengið, virðulegi forseti, að greiða niður skuldirnar, fyrir utan það að mjög skuldugur maður er ekki frjáls maður en skuldlaus er það svo sannarlega.