143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki, eigum við að taka þessa hugsun alla leið og segja að allt sem við greiðum inn í lífeyri megi fara í húsnæðisskuldir, ef það er svona miklu betra? Einhvern tíma var það orðað þannig við mig að í rauninni fari einn vinnudagur í viku í lífeyrissjóð af því sem við vinnum. Og væri það þá ekki best að það færi þá allt í að greiða húsnæðisskuldir? Þá held ég að vandinn yrði svolítið mikill þegar þjóðin fer á eftirlaun, er það ekki? (Gripið fram í.) Þá eiga allir hús, skuldlaust, og þurfa að selja það eða minnka við sig til að eiga fyrir framfærslu. Hv. þingmaður kemur ekki aftur upp í andsvar og getur því (GÞÞ: … ræða við þig um þetta.) ekki svarað spurningunni.

Það sem mér finnst undirliggjandi, og er einmitt ágætlega rakið í riti Seðlabankans frá því fyrir ári síðan, er að það eru mjög fábrotnar leiðir sem Íslendingum bjóðast til sparnaðar yfir höfuð. Það er annars vegar lífeyrissparnaður og hins vegar sparnaður í húsnæði eiginlega, sem Íslendingum hefur boðist, og hvort tveggja er sparnaður sem nýtist illa til nauðsynlegrar sveiflujöfnunar í samfélaginu. Húsnæði er ágætur sparnaður en sparnaðurinn er bundinn í steinsteypu, og hinn sparnaðurinn er bundinn í lífeyrisgreiðslum. Ég held að ég og hv. þingmaður getum alveg verið sammála um að það hlýtur að þurfa lífeyrissjóðakerfi, ég held að við hljótum að vera sammála um það. Ég held að lægri vexti þurfi á húsnæðislánum í landinu, ég mundi gjarnan vilja að við mundum vinna að því að reyna að koma á fót kerfi á Íslandi þar sem við gætum verið að borga 3–5% vexti af óverðtryggðum lánum, það yrði skaplegra. Svo þarf að fjölga fjárfestingarkostum og sparnaðarleiðum fyrir þá sem geta sparað, sem verða vonandi sem flestir.