143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við erum að ræða skuldaleiðréttingarfrumvarp Sjálfstæðisflokksins. Ég ætla að nálgast það mál út frá því hvernig frumvarpið uppfyllir kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismönnum er annt um að staðið sé við samninga og kosningaloforð eru að sjálfsögðu samningur við kjósendur. Hvernig lofaði Sjálfstæðisflokkurinn að koma til móts við skuldsett heimili fyrir kosningar? Það er spurningin.

Hér er ég með bækling frá Sjálfstæðisflokknum, sem dreift var fyrir kosningar. Þar eru þrjú atriði tiltekin. Fyrst er talað um lækkun skatta, hækkun ráðstöfunartekna, að ná tökum á skuldavandanum og svo að efla atvinnulífið. Ef bæklingurinn er opnaður stendur: Lækkaðu íbúðalánið um allt að 20% á fimm árum. Og nefnd eru tvö stór skref sem létta róður heimila og flýta fyrir eignamyndun. Það fyrra er að lækka höfuðstólinn með skattafslætti, það síðara er enn meiri höfuðstólslækkun með séreignarsparnaði; í raun sú leið sem verið er að fara núna, þ.e. sú leið sem þeir nefna númer tvö. Það mætti kannski segja að leiðin sem verið er að fara sé leið númer tvö og um hana segir: Þú getur líka notað framlag þitt og vinnuveitanda í séreignarsparnaði til að greiða skattfrjálst niður höfuðstól lánsins. Þannig greiðirðu sem nemur 4% launa þinna inn á höfuðstól lánsins. Þessi leið stendur öllum sem það vilja til boða.

Þetta er í megindráttum það sem verið er að fara í þessu frumvarpi. Fyrri leiðina, að lækka höfuðstólinn með skattafslætti, er ekki verið að fara, en þetta er stjórnarsamstarf og svo virðist sem Framsóknarflokkurinn taki boltann þarna en geri það ekki með skattafslætti heldur með niðurfellingu í gegnum ríkissjóð. Það fé á að fá með því, eins og gert var nú fyrir jól, að hækka skattinn, þennan sérstaka skatt, á bankana og ná þrotabúunum inn í þann skatt.

Þetta var mjög góð aðgerð, fannst mér, að hækka skattinn og ná loks þrotabúunum inn í hann. Þegar þessi skattur er settur á 2010 kemur alveg skýrt fram hvert markmið hans er. Markmið skattsins er að ná skuli til baka fé vegna hrunsins og eru þá sérstaklega tilteknir þeir aðilar sem höfðu áhrif á það að hér varð hrun. Það er önnur réttlætingin. Hin réttlætingin er sú að skattleggja skuli skuldir, út af því að það minnki áhættusækni. Mér finnst það góður skattur. Hann var hækkaður verulega og þrotabúin voru tekin inn í hann. Sá skattur á að borga fyrir framsóknarhlutann af þessari skuldaleiðréttingu. Ef þessi skattur reynist löglegur sem enn leikur vafi á — það er ákveðin áhætta þar — mun hann greiða fyrir framsóknarhlutann af þessu.

Þó að talað væri um forsendurnar fyrir skattinum, bankaskattinum, sem átti að greiða fyrir þetta, voru þrotabúin sérstaklega undanþegin þó að ein af tveimur meginástæðunum fyrir skattinum hafi verið að ná fjármagni til baka vegna hrunsins. Hvar liggja þeir peningar, hverjir hafa þarna hagsmuna að gæta? Þeir sem höfðu áhrif á að hrunið varð, það eru einmitt þrotabúin. Mér þótti það illskiljanlegt að þrotabúin hafi ekki verið tekin inn í þennan skatt í upphafi. Það var leiðrétt nú á haustþinginu, vel gert, skatturinn hækkaður, það á að borga fyrir framsóknarhlutann. Ókei, förum aftur í sjálfstæðishlutann á þessu.

Í umræddum bæklingi er talað um hjón með 600 þús. kr. meðaltekjur, sem skulda 20 millj. kr. verðtryggt íbúðalán. Að óbreyttu hækkar lánið um 2,2 milljónir á næstu fimm árum. Með ofangreindum skrefum lækkar höfuðstóll lánsins hins vegar og stendur í 18 milljónum að fimm árum liðnum. Munurinn eru 4,2 milljónir eða allt að 20% og greiðslubyrði lánsins léttist í samræmi við það.

Þakið á þessum heildarpakka, þ.e. hvenær á að leiðrétta höfuðstólinn, er einmitt 4 milljónir. Ef þú horfir á meðallán fólks í landinu þá eru þetta einmitt 20%. Sama hvað fólki finnst um þessar aðgerðir, að hægt væri að nota peningana í eitthvað annað o.s.frv., þá er ég að ræða um það hvort menn séu að uppfylla kosningaloforð sín. Og þannig er það með þetta kerfi okkar, sem er langt frá því að vera fullkomið, að þetta er stjórnarflokkaræði. Lýðræðið er mjög grunnt á Íslandi. Auðvitað ætti almenningur að geta komið að málum með miklu afdráttarlausari hætti en að kaupa sér kosningaloforð, sem annaðhvort er uppfyllt eða ekki, á fjögurra ára fresti. En nú erum við að skoða hvort verið sé að uppfylla þetta kosningaloforð.

Förum í frumvarpið sjálft. Neðst á 7. bls. stendur:

„Óháð því hvaða sviðsmynd verður næst veruleikanum, verði iðgjaldaúrræðið lögfest, er ljóst að áhrif á skuldastöðu heimilanna verða umtalsverð, eða 4,2% til 5,5% til lækkunar miðað við stöðu húsnæðislána …“

Þarna nær þessi lækkun 4,2–5,5%, sem er í 2. lið í kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins; lækkun sem í heild, í öllum liðum, hefði átt að ná 20%. Heildarhluti þessarar leiðréttingar á svo að vera 4 milljónir eða í kringum 20%.

Ef við förum í stjórnarsáttmálann þá er ríkisstjórnin að uppfylla kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins, hvað leiðréttingar á húsnæðislánum landsmanna varðar, prýðisvel. Ef við gætum allrar sanngirni þá uppfylla sjálfstæðismenn kosningaloforð sín prýðisvel, sama hvað okkur finnst annars um þetta, þó að okkur finnist að gera ætti hlutina öðruvísi.

Mig langar að nefna annað atriði í stjórnarsáttmálanum. Í síðustu málsgreininni segir:

„Unnið verði að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja fái eins hraða meðferð og mögulegt er.“

Þetta er frumvarp sem Hanna Birna lagði fram á sumarþinginu, fékk í gegn, það er komið í flýtimeðferð, verðtryggð og gengistryggð lán eru komin í flýtimeðferð. Þau eru búin að fá heimild til flýtimeðferðar.

Hanna Birna skapaði líka svigrúm með því að banna að það sé gert …

(Forseti (ÞorS): Þingmanninum ber að vitna til hæstv. ráðherra eða hv. þingmanna.)

… ég biðst afsökunar.

Hæstv. ráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir lagði líka fram frumvarp nú rétt fyrir jólin um að ekki megi vísa fólki af heimilum sínum fram í september, þannig að þar er komið svigrúm. Ef við horfum á þessa síðustu málsgrein í stjórnarsáttmálanum og höldum áfram með síðustu línuna í því, þá verður óvissu um stöðu lánþega gagnvart lánastofnunum að linna. Það er búið að skapa svigrúm fram í september þannig að ekki sé hægt að vísa fólki af heimili sínu. Það er búið að tryggja að flýtimeðferð verði hjá dómstólum um mál sem varða verðtryggingu og gengistryggð lán. Þetta hefur hæstv. ráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir tryggt.

En nú krefst Íbúðalánasjóður frávísunar á dómsmáli sem á að skera úr um verðtrygginguna. Maður skilur það kannski að Íbúðalánasjóður, og forsvarsmenn þar, yfirstjórnin þar, verður að hugsa um hagsmuni Íbúðalánasjóðs. Þeir eru lögbundnir til þess, annars mundu þeir þurfa að segja sig frá því starfi. En ráðherra getur gripið inn í þar. Hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir getur gripið inn í það mál og skipað Íbúðalánasjóði að falla frá þessari frávísunarkröfu. Það stendur í stjórnarsáttmálanum að óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum — Íbúðalánasjóði þá líka — verði að linna.

Ég mundi segja að þessi síðasta klausa í stjórnarsáttmálanum væri stefna Pírata í skuldamálum heimilanna. Við höfum ekki talað fyrir skuldaniðurfellingum eða skattafslætti til að lækka höfuðstól lána. Það sem við töluðum fyrir var réttarstaða lántakenda. Og þar er pottur brotinn.

Jú, gerðir hafa verið góðir hlutir af hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún skapaði kringumstæður fyrir því að hægt væri að fara í flýtimeðferð með þessi dómsmál og svigrúm til að klára það. En það sem eftir situr er að hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir verður að beita sér líka, beita sér á þann veg að hægt sé að fá niðurstöðu í málið þannig að óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum linni.