143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að taka þátt í umræðunni og fara í andsvör við flesta hv. stjórnarandstæðinga. Ég gerði það reyndar ekki síðast vegna þess að ég átti að koma í pontu strax á eftir hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, enda var bara svo margt ágætt í ræðu hans. Mér fannst hv. þingmaður nálgast efnið á annan hátt en flestir aðrir stjórnarandstæðingar og margt sem ég get alveg tekið undir. Og margt það sem ég fer yfir er kannski ekki ósvipað því sem hv. þingmaður velti fyrir sér.

Ég átti hins vegar orðaskipti við hv. þm. Guðmund Steingrímsson áðan og hann bar upp spurningu til mín sem ég gat ekki svarað, og ég ætla að svara henni meðan ég man. Hún var um hvort ekki væri best að hafa það bara þannig að við værum ekki með neinn séreignarlífeyrissparnað heldur greiddum hreinlega upp húsnæði okkar. Það held ég að sé að vísu ekki skynsamlegt en eins og ég nefndi snýst þetta um sparnað fólks. Lífeyrissparnaður er aðeins orð sem er notað. Í lífeyriskerfinu er ekki bara sparnaður, það eru líka tryggingar, það er örorkutrygging og makatrygging sem er mjög stór hluti iðgjaldsins, þannig að við höfum tekið ákveðinn hluta af, við getum sagt öryggiskerfinu okkar og sett það inn í lífeyrissjóðakerfið.

Það er hins vegar þannig að skuldir og lífeyrissparnaður eða langtímasparnaður er bara hvor sín hliðin á sama peningnum. Þannig er það. Ef einhver einstaklingur, sama hver hann er, er kominn á síðustu ár vinnuævi sinnar og skuldar mikið þá er viðkomandi einstaklingur í mjög erfiðum málum. Við höfum verið með arfageggjaða stefnu í húsnæðismálum svo áratugum skiptir og við höfum verið að taka afleiðingum þess. Ég hef barist gegn því á opinberum vettvangi síðan 1995. Við höfum verið með kerfi sem hefur gengið út á það að hvetja fólk til að skulda og kerfið gekk aðeins upp ef samfelldar hækkanir voru á fasteignum. Um leið og það stoppaði lentum við í sömu vandræðum og þær þjóðir sem við berum okkur saman við, t.d. Norðurlönd. Því að ef þú ert með hátt lánshlutfall og fólki umbunað með vaxtabótum, sem án nokkurs vafa leiðir til þess að fólk er oft að hækka lánin sín til að fá bætur, og þetta var vel þekkt, þá ertu sífellt að auka skuldir heimilanna. Það getur hver og einn skoðað það í opinberum tölum að þróunin varð sú. Þetta sleppur ef fasteignaverðið hækkar alltaf, þá getur þú selt húsið þitt og færð meira á milli, jafnvel þó að skuldirnar hafi hækkað. Um leið og hægist um á fasteignamarkaði, ég tala nú ekki um ef verð stoppar eða lækkar þá áttu ekkert í húsnæðinu og þá byrja vandræðin. Vanalega gerist það í kjölfarið á efnahagskreppu sem gerir það að verkum að fólk hefur líka minna á milli handanna.

Ef við hefðum farið þá leið að ýta undir ráðdeild og sparnað, þ.e. að hvetja fólk til að spara og með skattalegum hvötum, þá erum við að hjálpa fólki til að eignast í húsnæðinu. Þá eiga menn varasjóð í húsnæðinu ef áföll verða og þarna er bara stór munur á. Við tókum þetta upp og komum með skýrslu árið 1995 til þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra þar sem við bentum á slíka leið. Og á þeim tíma bentum við einnig á þær miklu upphæðir sem fóru í Húsnæðisstofnun, þáverandi, og sömuleiðis í allra handa bætur, sem hefði verið hægt að nýta miklu betur með því að styrkja fólk með skattalegum hvötum til að eignast í sínu húsnæði. Ef við hefðum farið þá leið værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í í dag og værum ekki með þennan gríðarlega vanda í Íbúðalánasjóði sem er náttúrlega slíkur að hann er í rauninni stóri bleiki fíllinn þegar kemur að ríkisútgjöldum. Á þetta var ekki hlustað á þeim tíma en ég er gríðarlega ánægður með að þetta skuli komið núna á dagskrá og vonandi verður þetta að lögum sem allra fyrst.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að sparnað vantar í íslenskt þjóðfélag, við þurfum að spara meira. Við eigum þó lífeyrissparnað sem aðrar þjóðir eiga alla jafna ekki, en hann verður fyrir áföllum eðli málsins samkvæmt þegar efnahagsleg áföll verða. Ég veit ekki til þess að nein vísitala í heiminum, kannski er einhver hér inni sem getur upplýst um það, sem er með 3,5% raunávöxtun í yfir 40 ár. Ég veit ekki til þess að nein slík vísitala sé til, hlutabréfavísitala eða neitt slíkt. Það má vera en þá er það alla vega mjög sjaldgæft. En kerfið okkar byggir enn þá á einhverju sem gengur ekki upp, en því fyrr sem við ýtum undir sparnað, ef við ýtum undir og hjálpum fólki við að eignast í húsnæðinu sínu, því betra.

Eins og hér hefur komið fram vísaði hv. þm. Guðmundur Steingrímsson til þess að einstaklingar hefðu oft klárað séreignarsparnað sinn og ættu ekki neitt. Þetta snýr í rauninni ekki að því. Þetta snýr að því að menn geti nýtt sér þessa leið. Eru menn þá að fá bæði atvinnurekandann og skattafsláttinn til að hjálpa fólki að greiða niður skuldir. Það varð mjög mikið fall í þátttöku í viðbótarlífeyrissjóðakerfinu. Það var um 81% 2008 en hefur núna farið í 58%. Í ofanálag höfum við séð að fólk hefur verið að taka innstæður sínar út úr bankareikningi. Þetta er hins vegar góð leið og ef við nýtum hana með þessum hætti er enginn vafi á að margt fólk verður eftir þennan tíma í allt annarri stöðu þegar kemur að húsnæðinu, greiðslubyrðin verður miklu lægri, eignamyndunin verður orðin veruleg sem gefur fólki tækifæri og aukið frelsi til að skipta um húsnæði o.s.frv.

Það er líka annað sem lítið hefur verið rætt að við erum í þeirri skelfilegu stöðu að vera í fjármagnshöftum og lífeyrissjóðir þurfa virkilega að fjárfesta í öðrum löndum og hafa einfaldlega fleiri fjárfestingarkosti. Þeir eru risastórir, og í ofanálag er ekki skynsamlegt fyrir okkur að hafa öll eggin í sömu körfunni. Við Íslendingar búum hér, við eigum okkar húsnæði hér og við erum með öll eggin okkar í þeirri körfu sem Ísland er. Skynsamlegt er að dreifa áhættunni og skynsamlegt er að lífeyrissjóðirnir séu með einhver egg í öðrum körfum en íslensku efnahagslífi. Bara út frá þeim einföldu staðreyndum eigum við að gera allt til að lífeyrissjóðir fái tækifæri til að fjárfesta erlendis. Skoðun mín er sú að þeir ættu að vera með langstærsta hlutfall af eignum sínum í erlendum fjárfestingum. Ég veit að það er langtímamarkmið því að við þurfum að breyta gríðarlegu til að svo megi verða. Við eigum að hafa það markmið að þeir verði með lungann af fjárfestingum sínum annars staðar en á Íslandi. Sé svo ekki er enginn vafi á því að það mun leiða til annarrar bólu, kannski er hún farin af stað, og leiddi örugglega líka til bólunnar sem varð hér á hlutabréfamarkaði. Við erum með þessa stóru lífeyrissjóði hér á landi eðli málsins samkvæmt af því að við erum dugleg að spara miðað við aðrar þjóðir og þeir verða því mjög stórir fjárfestar á íslenskum markaði. Nú er ég ekki að segja að menn hagnist á öllu því sem fjárfest er í útlöndum og það séu óendanlega góðir fjárfestingarkostir, svo er ekki, ég er ekki að halda því fram. En ég er bara að segja það út af því að við eigum að dreifa áhættunni og einnig eru allra handa gallar sem fylgja því að þegar við erum með þessa lífeyrissjóði okkar svona stóra að fjárfesta á íslenskum markaði og því eigum við að dreifa fjárfestingunum víðar.

Hér hefur verið rætt mikið um óréttlæti sem felist í skattafslætti sem menn fái, að prósentan geri það að verkum að menn fái með hærri upphæð meira í skattafslátt þegar hún er bundið við prósentu. Það er augljóst. Ég held að menn ættu að hugsa það alla leið ef menn telja það vera mjög ósanngjarnt því að næsta skrefið — mér fannst áhugavert að bæði hv. þm. Árni Páll Árnason og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir svöruðu því ekki skýrt þegar ég spurði, því bæði notuðu þau þá röksemd til að tala þessa hugmynd niður, hvort það sama ætti við um fjármagnsskattafsláttinn af lífeyrissparnaðinum og séreignarsparnaðinum, því að á sama hátt er það fjármagnsskattafsláttur. Það er ekki fjármagnsskattur greiddur af lífeyrissjóðsparnaði og sparnaði í séreign og er það eina sparnaðarformið sem er í þeirri stöðu. Áður var það líka undanþegið eignarskatti þannig að segja má að þarna sé gríðarlega mikill skattafsláttur á ferðinni ef menn vilja nota þau hugtök sem sumum í þessum þingsal er gjarnt að nota, ef hv. þingmönnum finnst þessi leið ósanngjörn út frá því að hærri upphæð fái meiri skattafslátt þá á það sama svo sannarlega við um fjármagnstekjuskattinn. Það olli mér áhyggjum að hv. þingmenn, formenn VG og Samfylkingarinnar, skyldu ekki svara því skýrt að þeir vildu ekki sjá að það yrði lagður á fjármagnstekjuskattur á lífeyrissparnað og séreignarsparnað. Það er auðvelt að gagnálykta að þau séu þá að hugsa um það að leggja fjármagnstekjuskatt á séreignarsparnað og lífeyrissparnað og það eru auðvitað stórfrétt ef það er. Ég hvet hv. stjórnarandstöðu til að tala skýrt í því máli því að þar er um að ræða mjög stórt mál.

Ég talaði fyrir þessari leið fyrir löngu síðan og skrifaði grein 7. nóvember 2012 þar sem ég rakti kosti þeirrar leiðar. Þeir voru þessir, með leyfi forseta:

„1. Þetta léttir líf þeirra fjölskyldna sem skulda og eiga inneign í séreign eða eru að borga í séreign.

2. Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna minnkar þar sem „eignir“ þeirra eru nýttar til að greiða niður skuldir viðkomandi sjóðfélaga. Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna er mikið vandamál þegar þeir geta ekki fjárfest í útlöndum og það býður heim hættunni á eignabólumyndun.

3. Þetta minnkar bankakerfið. Útlánasafnið minnkar sem og eignir þeirra. Að sama skapi fækkar viðskiptavinum í fjárhagsvanda.

4. Hér er leið ráðdeildar og sparnaðar nýtt til að greiða úr skuldavandanum.

5. Leiðin felur ekki í sér mismunum á milli einstaklinga, nema í henni sé skattahvati, það er að segja að tekjuskattsprósentan sem tekin væri af „útgreiðslunni“ væri lægri en almennu skattprósenturnar. Ég tel það vera réttlætanlegt að hafa lága prósentu til að hjálpa fólki að greiða niður skuldir sínar.

6. Þessi leið mundi styrkja lífeyrissjóðakerfið þar sem fleiri mundu nýta sér viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið. Árið 2008 var þátttakan í viðbótarlífeyrissjóðakerfinu 81,3% en er núna 58,2%.

7. Enginn kostnaður lendir á skattgreiðendum.“

Á það hefur verið bent að ríkið muni tapa skatttekjum í framtíðinni og auðvitað má færa rök fyrir því en það breytir því ekki að það munu án nokkurs vafa koma aðrar skatttekjur líka ef fleiri einstaklingar eru í þeirri stöðu, komnir á lífeyrisaldur, að eiga sitt húsnæði skattfrjálst. Sala á slíku húsnæði skapar skatttekjur fyrir ríkissjóð og jafnframt aukin umsvif þeirra einstaklinga sem hafa meira á milli handanna vegna þess að þeir skulda ekki í húsnæði sínu. Þegar menn eru að bera það saman og segja: Við erum hér að fórna framtíðarlífeyrisgreiðslum. Jú, jú, færa má rök fyrir því að því gefnu að fólk muni þá ekki gefa meira í þegar fram líða stundir, þá verða menn eðli máls að líta til þess, því að almenna reglan er sú og hún er nokkuð almenn að kostnaður á húsnæðislán, vextir af þeim, verður ávallt hærri en sú ávöxtun sem menn geta fengið af séreignarsparnaðinum. Ef dæmi eru til um eitthvað annað kæmi það mjög á óvart, en væri í sjálfu sér ánægjulegt ef einhverjir væru á þeim stað en ég held að það sé eitthvað sem menn geta alla vega ekki gert ráð fyrir.

Ég tel að hér sé um skynsamlega leið að ræða. Ég vona að hún sé fyrsta skrefið í því að móta kerfi sem hvetur fólk til að nýta sér ráðdeild og sparnað við húsnæðiskaup. Ég er sérstaklega ánægður með að sjá það líka varðandi húsnæðissparnaðarreikningana sem þarna eru, að verið er að hjálpa ungu fólki að kaupa sína fyrstu íbúð. Það er eitthvað sem hlýtur að vera mjög jákvætt. Á það hefur verið bent að menn megi ekki tala um hv. stjórnarandstöðu í heild sinni, en ég tók eftir að hv. formaður Bjartrar framtíðar talaði á annan hátt en hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Á sama veg á það líka við um hv. þingmann Pírata sem ræddi þessi mál því þar kveður við annan tón. En alla vega, ég gat ekki greint annað en að sá hluti stjórnarandstöðunnar sem samanstendur af VG og Samfylkingunni fyndi þessari leið flest til foráttu og tel að rök hans fyrir því standist ekki skoðun og vona að hv. þingmenn í þeim flokkum sjái að sér og styðji þessa skynsamlegu leið.