143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála einu í ræðu hv. þingmanns og því sem kom fremst að það er mjög erfitt og óæskilegt að fólk hneppist í of mikla skuldafjötra, að heimilisskuldir verði of miklar. Hv. þingmaður tók sterkt til orða, talaði um að við hefðum rekið arfavitlaust kerfi undanfarin ár eða áratugi sem hefði hvatt fólk til að skulda. Þessu fagna ég alveg sérstaklega frá þingmanni úr röðum Sjálfstæðisflokksins vegna þess að þetta er skilgetið afkvæmi þeirrar stefnu í húsnæðismálum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir umfram alla aðra flokka, þ.e. séreignarstefnunni. Glórulaus séreignarstefna sem ekki hafa verið efnahagslegar forsendur fyrir hjá þúsundum ef ekki tugþúsundum heimila í landinu vegna þess að menn hafa ekki byggt upp neitt almennilegt félagslegt húsnæðiskerfi og lagt það niður núna í seinni tíð. Hér hefur ekki myndast almennilegur leigumarkaður og það á sinn þátt í því hvað heimilisskuldir eru gríðarlega hátt hlutfall af landsframleiðslu á Íslandi. Pólitísk öfl í þessu landi hafa alltaf lagt stein í götu þess að tekjulægri fjölskyldur ættu aðra valkosti í húsnæðismálum en þá að rembast við það með allt of lágum tekjum að eignast sitt eigið húsnæði. Fyrir vikið hafa þúsundir fjölskyldna verið í skuldavandræðum.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þetta til marks um að hann sé kominn með verulegar efasemdir eða jafnvel orðinn afhuga séreignarstefnu Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum? Er hv. þingmaður þó þetta skynugur og stór í sniðum að hann viðurkenni mistökin sem hin mikla áhersla á séreignarstefnu hefur leitt yfir okkur í húsnæðismálum? Hún er óaðskiljanlegur hluti af þessum anda, þ.e. að sjálfsögðu fyrst og fremst hjá tekjulægri hlutum fjölskyldnanna.