143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög gott að fá andsvar hjá hv. þingmanni og þakka honum fyrir það, en það veldur mér örlitlum vonbrigðum að hann hlustaði ekki á ræðuna mína. Það er allt í lagi, ég fer þá bara yfir þetta aftur á þessum stutta tíma.

Ég var að vekja athygli á gagnrýni minni, og ég get bent hv. þingmanni á Íbúðalánasjóðsskýrsluna, t.d. á bls. 131 í henni þar sem farið er yfir orðaskipti mín og hv. stjórnarandstæðinga í umræðum um breytingar á Íbúðalánasjóði. Ég var gagnrýndur hvað eftir annað fyrir að taka upp málefni Íbúðalánasjóðs, það var fullkominn glæpur. Ég benti á að Íbúðalánasjóður væri ekki með eftirlit eins og aðrar fjármálastofnanir o.s.frv. Ég benti líka á að í því kerfi sem við byggðum upp, sem var algerlega heilagt fyrir vinstri mönnum, vorum við að ýta undir skuldsetningu m.a. með háu lánshlutfalli og með áherslu á vaxtabætur í staðinn fyrir skattalega hvata til að hjálpa fólki til eignast húsnæði. Ég var búinn að skoða hvað gerðist í Noregi og Svíþjóð og tók dæmi, það er á bls. 131, og sagði að þetta kerfi gæti ekki gengið upp nema fasteignir héldu áfram að hækka. Um leið og þær stoppa í verði, ég tala nú ekki um ef þær fara að lækka, er voðinn vís. Það var hlegið að mér hér í þingsalnum af hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og það var allt í lagi. Ég var spurður að því hvort ég væri virkilega að spá bankahruni sem ég var ekki að gera. Ég var bara að benda á þessar augljósu staðreyndir.

Ég er svo sannarlega fylgjandi því að fólk fái að eignast sitt húsnæði en ég tel að við eigum að aðstoða fólk með öðrum hætti. Því miður vorum við ekki með gagnrýna hugsun þegar kom að þessum þáttum, alls ekki þegar kom að ríkisbankanum. Nú erum við búin að setja 40 þúsund millj. kr. í hann. Að öllu óbreyttu þurfum við að setja 35–70 þús. millj. kr. í viðbót.

Ég efast ekki um það að allir hafi viljað vel þegar þeir héldu vörð um Íbúðalánasjóð eins og hann var o.s.frv. og ætlað sér alla góða hluti en við hugsuðum þetta ekki í gegn og því fór sem fór. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns. Ef ekki þá bara reynum við aftur.