143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó hv. þingmaður sé svolítið skrautlegur í orðavali finnst mér margt ágætt efnislegt sem kemur fram hjá honum.

Ég var í hv. félagsmálanefnd þegar farið var í 90% lánin. Ég man vel eftir þeirri umræðu og ég fletti henni líka upp. Þetta kemur allt saman fram þar og hv þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar beittu sér í nefndinni og einnig í þingræðum þar sem þeir skömmuðu m.a. Framsóknarflokkinn fyrir að vera tekinn yfir af Sjálfstæðisflokknum vegna þess að hámarksupphæð á íbúð væri svo lág. Krafa vinstri flokkanna var að hún yrði enn þá hærri. Það er án nokkurs vafa óskynsamlegt eins og hv. þingmaður vísaði til.

Á sama hátt hefur því miður aldrei mátt ræða með gagnrýnu hugarfari hvort það sé skynsamlegt fyrir okkur að fara í vaxtabætur eða fara aðrar leiðir til að hjálpa fólki til að eignast húsnæði. Ég vísaði til greinar sem ég skrifaði um þetta, ef hv. þingmaður hefði hlustað, og til viðtals, fréttar frá 30. nóvember 1995. Ég var þá formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og við fórum með sérstaka skýrslu til þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra þar sem við bentum á þetta og að það væri best, sérstaklega fyrir tekjuminnstu fjölskyldurnar, ef þær fengju skattalegan hvata eða beinan styrk í stað þess kerfis sem var við lýði.

Ég vona að hv. þingmaður kynni sér þetta en ég er ekki að taka ábyrgð af neinum, auðvitað berum við sjálfstæðismenn ábyrgð á mörgu því sem þarna gerðist og við áttum án nokkurs vafa að standa miklu fastar á þeim prinsippum sem við stöndum fyrir. Við höfum engar afsakanir í því. En hins vegar var þetta svona og ég tók þessa umræðu oft, ég bað um sérstaka umræðu, ég var með munnlega fyrirspurn og annað slíkt um þessi mál. Ég veit hvernig umræðan var og ég veit alveg hvar hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna stóðu í henni.

Hins vegar varðandi allt það sem snýr að ríkissjóði, skuldum þar og slíku, get ég tekið undir markmið hv. þingmanns. Mæli hann manna heilastur. Það er eitthvað sem við þurfum eðli máls samkvæmt að fara vel yfir í þessu máli sem og öllum öðrum. (Forseti hringir.) og ef við hv. þingmaður náum samstöðu í því, þó ekki væri öðru, er til mikils unnið.