143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi hér áðan það sem gekk fram af mínum vörum. Ég ætla þá bara að bæta við spurninguna og fara ekki of djúpt í það en það er einmitt það hvernig íslensk heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í vestrænum heimi sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, yfir 200% af ráðstöfunartekjum er skuldin, árlegum ráðstöfunartekjum. Við erum líka það land, kannski að Noregi undanskildum, sem göngum hvað lengst með séreignarskatt.

Nú er séreignarstefna góð en hún er erfið þegar ekki er almennilegur valkostur um húsnæðisöryggi á leigumarkaði, sem er nauðsynlegt í svo mörgu tilliti. Þá vakna þær áhyggjur að í stað þess að nota fjármuni, opinbera fjármuni, til að byggja upp almennan leigumarkað þá er verið að nota opinbera fjármuni í að auðvelda fólki að spara fyrir útborgun í húsnæði. Ég er ekki að segja að það þurfi að vera rangt í öllum tilfellum en mér finnst það skjóta skökku við.

Varðandi sparnað — hann er vissulega jákvæður og mikilvægur í hagkerfum, mismikill eftir aldurssamsetningu þjóða, og við erum náttúrlega ung þjóð — vildi ég spyrja hv. þingmann út í það hvort hann sé ekki hræddur. Nú höfum við á síðustu árum verið að fara í séreignarsparnaðinn og samkvæmt frumvarpinu á að halda því áfram. Telur hv. þingmaður ekki að það veiki stoðir lífeyriskerfisins þegar séreignarsparnaðarstoðin veikist svona, erum við kannski að slátra mjólkurkúnni?