143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þessu varðandi séreignina almennt: Ég vek athygli á því að þegar menn skoða tölur þá minnir mig að 1/4 hluti íslenskra heimila eigi skuldlaust húsnæði. Í því felst auðvitað mikil eign. Ég geri ráð fyrir því að það sé fyrst og fremst eldra fólk og það hefur þá í fyrsta skipti verið að skapa einhverjar eignir hjá fjölskyldum, efnislegar eignir. Í það minnsta hefur það ekki verið gert í mörg hundruð ár. Þetta er eitthvað sem aðrar þjóðir hafa haft mjög lengi. Við getum kallað það gömlu Evrópu, þar hefur húsnæði til dæmis gengið kynslóða á milli. Í því felst bæði mikið öryggi og mikil verðmæti en þetta er nú aðeins komið hjá okkur sem er auðvitað mjög jákvætt.

Ég vil líka vekja athygli á því að við vorum hér með sérstakan banka, Íbúðalánasjóð, og erum með enn þá. Það átti að vera sérstakt félagslegt úrræði. Menn töluðu ekkert ósvipað og hv. þingmaður talar hér, um mikilvægi þess banka. Þar erum við að tala um kostnað eins og ég nefni. Við höfum frá bankahruni sett 40 þús. milljónir (SII: Meira.) — að öllu óbreyttu, eða 46 þús. milljónir þá, ef það er þá farið, ég veit ekki hvort það er farið. Á þessum fjárlögum er gert ráð fyrir verulegum fjármunum og gert ráð fyrir 35–70 þús. milljónum í viðbót.

Hv. þingmaður spyr hvort farið hafi verið inn í séreignarkerfið. Það hefur ekki verið farið inn í það, það hefur verið valkvætt. En það sem hefur verið gerast, og lítil umræða hefur verið um það, er að séreignarlífeyrissjóðakerfið hefur hríðfallið. Það er mjög slæmt því að þetta er ekki bara góð sparnaðarleið heldur fær fólk líka greiðslu frá atvinnurekandanum. Hlutfall þeirra sem hafa nýtt sér þetta hefur farið úr 82%, eins og ég nefndi hér áðan, í 53 eða 54% á nokkrum árum, að ég held. Ég held að vísu þvert á móti að frumvarpið geri að verkum að fólk fari að nota þetta áfram. Ég vil trúa því að líkur séu á því að þegar menn eru búnir að nýta þetta til að greiða niður skuldirnar, þá muni þeir halda áfram að spara. Auðvitað veit ég það ekki en í það minnsta hefur kerfið veikst mikið að undanförnu og þetta er vonandi leið til að efla það aftur.